Ráðherra andsnúinn fyrsta þingmáli ríkisstjórnarinnar

Fæstir reiknuðu með miklu fjöri er Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra mælti fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um siglingavernd í vikunni, en með lögunum er brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA, það er ESA.

Fyrsta umræða málsins fór þó þannig að ráðherrann stóð í púlti Alþingis og lýsti sig andsnúinn bókun 35, sem fyrsta þingmál nýrrar ríkisstjórnar snýr að, og að hann sjálfur hefði frekar viljað láta reyna á athugasemdir ESA sem fyrrgreint breytingafrumvarp snýr að fyrir Evrópudómstólnum en með þeim lagabreytingum sem hann hefur lagt fram.

Þetta gerðist eftir að Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, spurði um afstöðu ráðherrans til bókunar 35, sem rædd var fyrr um daginn, í andsvari.

Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Bryndís Haraldsóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Eyjólfur Ármannsson samgönguráðherra og Bryndís Haraldsóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Ágreiningur um bókun 35 afgreiddur fyrir 30 árum

Ráðherra svaraði því til að í þessu máli, sem snýr að breytingafrumvarpinu, hafi forgangsreglan sem bókun 35 felur í sér ekki getað bjargað málunum.

„Ég vil segja það, varðandi þetta mál, varðandi bókun 35, þá var leyst úr því máli fyrir 30 árum síðan með 3. gr. EES-laganna, samræmisskýringunni sem átti að vera gríðarlega víðtæk og margir vildu meina það að hún tæki tillit til forgangsreglunnar, það var það sem átti að gera og við höfum ekki verið að brjóta þann samning í 30 ár,“ sagði Eyjólfur.

Klippur af orðaskiptunum má sjá í myndbandinu hér fyrir ofan en það helsta er einnig rakið hér áfram:

Steig Bryndís þá aftur í pontu og spurði ráðherra hvort hún hefði skilið það rétt að í hans huga væri fyrsta þingmál ríkisstjórnarinnar algjörlega óþarft.

„Ég ætla að gefa hæstvirtum ráðherra tækifæri til að koma og útskýra þessi orð sín aðeins betur því að ef ég skildi orð hans rétt að þá væri EES-samningurinn rétt innleiddur og það væri engin þörf á bókun 35,” sagði Bryndís.

Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra og þingmaður Flokks fólksins.
Eyjólfur Ármannsson, samgönguráðherra og þingmaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hvað bókun 35 varðar sagði ráðherrann það kristaltært í sínum huga að það hafi verið gengið frá henni fyrir 30 árum síðan.

„Menn vissu vandamálið. Af hverju? Jú, af því að á fótboltavellinum, innri markaði Evrópusambandsins er bara eitt sett af reglum. Ísland getur ekki verið með sérreglur. Það vissu allir þetta vandamál um það hvort það ætti að innleiða bókun 35 eða ekki. Það var ákveðið að gera það ekki og ég hef verið talsmaður þess að halda áfram á sömu vegferð og get meðal annars vitnað til Carl Baudenbacher, dómara EFTA-dómstólsins, sem segir það að við höfum staðið okkur betur við innleiðingu EES-reglna heldur en Norðmenn sem hafa þessa forgangsreglu í lögum,“ sagði Eyjólfur.

Hefði frekar viljað fara fyrir EFTA-dómstólinn

Ráðherrann segist þrátt fyrir að vera andsnúinn bókun 35 styðja ríkisstjórnina.

„Ég tel það, að þegar við göngum í samstarf við aðra flokka, þá gefum við eftir sum mál okkar og fáum önnur fram. Þetta er málamiðlun. Íslensk stjórnmál byggjast á málamiðlunum og við erum í flokkum, og það er flokksagi, og við spilum í sama liðinu. Ég fer ekki að breyta um leikkerfi í ríkisstjórn Íslands í dag. Það var samið um þetta og ég styð ríkisstjórn Íslands og það er þannig sem að ég lít á þetta mál.“

Hann áréttaði þó þá sannfæringu sína að hann hefði viljað að þetta mál, sem breytingarfrumvarpið lýtur að, færi fyrir EFTA-dómstólinn.

„Er þetta samstaðan sem við sjáum fram á?“

Bryndísi virtist nokkuð skemmt af svörum ráðherrans og tók aftur til máls undir lok dags.

„Nú er að ljúka fyrsta alvöru þingfundardegi þessarar ríkisstjórnar og fyrsta mál ríkisstjórnarinnar var bókun 35. Nú erum við búin að fá það fram hér í þessu ræðupúlti að einn af ráðherrum ríkisstjórnarinnar styður ekki það mál [...] og ég velti fyrir mér, er þetta samstaðan sem við sjáum fram á? Er þetta samstaðan sem að hæstvirtur forsætisráðherra talaði um að hér væri komin samhent ríkisstjórn? Hún er ekki einu sinni sammála um fyrsta þingmálið!“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Steinar úr glerhúsi að mati Sigmars

Sigmari virtist nóg boðið af skotum Bryndísar og sagði Sjálfstæðismenn hafa gleymt því í hvers konar stjórnarsamstarfi þeir voru undanfarin sjö ár.

„Eru menn raunverulega hér, þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem eyddu síðustu sjö árum í það að rífast við samstarfsflokkana um stórt og smátt, daginn út og inn, að gera einhverjar athugasemdir við það að það sé ekki fullkominn samhljómur í öllu sem að sagt er hér úr þessum ræðustól af hálfu nýrrar ríkisstjórnar, sem gengst við því, að vera samsett af þremur flokkum, rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur sérhæft sig í, í gegnum lýðveldissöguna, að eiga samstarf við aðra flokka sem þeir eru ekki endilega sammála um, um alla skapaða hluti,“ sagði Sigmar.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Hákon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert