Vitni elti uppi árásarmann og leiddi til handtöku

Lögreglumenn höfðu upp á árásarmanninum og handtóku hann.
Lögreglumenn höfðu upp á árásarmanninum og handtóku hann. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður réðst á konu á höfuðborgarsvæðinu í dag og hvarf svo akandi af vettvangi. Vitni að árásinni ákvað að elta manninn uppi og þannig gat hann vísað lögreglu á hann.

Lögreglumenn stöðvar 3, sem starfa á svæðinu sem afmarkast af Kópavogi og Breiðholti höfðu upp á árásarmanninum og handtóku hann.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í dagbók lögreglu vegna verkefna hennar frá klukkan 5 í morgun til 17 síðdegis. Sex gista fangageymslu en alls voru 58 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu.

Innbrot, umferðarslys og samfélagslöggæsla

Brotist var inn í fyrirtæki í vesturhluta borgarinnar og ýmsum munum og fjármunum stolið. Innbrotsþjófurinn er einnig talinn hafa farið inn í nærliggjandi fyrirtæki og er málið í rannsókn.

Þá var maður handtekinn í dag grunaður um vörslu fíkniefna en hann var einnig með hníf meðferðis. Var hann vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar annars máls sem hann er talinn tengjast.

Tilkynnt var um búðarhnupl í þremur aðskildum málum sem öll voru afgreidd á vettvangi og þá stöðvaði lögregla ökumenn grunaða um akstur undir áhrifum fíkniefna annars vegar og án réttinda hins vegar.

Bifreið hafnaði á ljósastaur á Vesturlandsvegi og voru bæði ökumaður og farþegi flutt til aðhlynningar á slysadeild.

Þegar kemur að meira upplífgandi verkefnum lögreglu sinnti samfélagslöggæslufólk m.a. heimsóknum í félagsheimili og höfðu viðveru á skólaböllum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert