Verktakar sem unnið hafa að varnargörðum í Grindavík eru við það að ljúka við gerð varnargarða við Svartsengi og Grindavík að sögn Jóns Hauks Steingrímssonar, jarðeðlisfræðings hjá Eflu.
Hann segir að litlu hefði mátt muna að varnargarðarnir hefðu ekki dugað í síðasta eldgosi í Grindavík vegna þess hve mikið efni hlóðst upp.
„Við erum að klára síðustu strokurnar í varnargörðunum. Nú eru bara minniháttar frágangsmál eftir,“ segir Jón Haukur.
Hann segir þó ofsögum sagt að vinnu við varnargarðana sé lokið til frambúðar.
„Við stillum þetta þannig af að við eigum inni varnargarða fyrir eitt gos. En svo bregðumst við bara við þegar við sjáum hvernig næsta gos þróast og gerum hlutina í þrepum. Það hefur verið farsæll taktur,“ segir Jón Haukur. Bendir hann á að það sé á herðum dómsmálaráðherra að heimila frekari vinnu við varnargarða.
Hann segir það misjafnt hversu mikið hefur reynt á garðana.
„Atburðurinn í nóvember var grafalvarlegur því þá kom svo mikið efni sem hlóðst upp að við áttum engan afgang eftir af varnargörðum. Því þurfum við að fara í heljarinnar vinnu þegar því var lokið,“ segir Jón Haukur.
Hann segir nú einungis um 15 menn eftir á svæðinu en að þeim muni fækka í tíu um næstu mánaðamót að óbreyttu. Mest voru um 50 menn við jarðvinnu og 15-18 á næturvakt í janúar.