Valentínusardagurinn skipar stóran sess í hjörtum starfsfólks Póstsins, en það hefur í gegnum árin aðstoðað fjölmarga við að koma fallegum kveðjum og óvæntum glaðningum til sinna heittelskuðu í tilefni dagsins.
„Við höfum brugðið á leik undanfarin ár í kringum Valentínusardaginn,“ segir Kristín Inga Jónsdóttir, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins.
„Við ákváðum að halda í þá skemmtilegu hefð nú sem endranær, en þó með örlítið breyttu sniði en áður. Í fyrra stilltum við til dæmis fallega hjartapóstkassanum okkar upp í Kringlunni þar sem fólki gafst kostur á að skrifa sjóðheit ástarbréf og krúttleg kærleikskort fyrir sitt besta fólk og stinga í póstkassann. Við komum kveðjunum svo í réttar hendur,“ segir Kristín Inga.
Hún segir að í ár hafi áhersla verið lögð á einfaldleikann og þægindin við að nota Póstbox. „Þannig að í ár dreifðum við Valentínusargleðinni í boxin og komum líka nokkrum viðskiptavinum sem voru að sækja eða senda í Póstbox á óvart með því að færa þeim blómvendi.“
Að sögn Kristínar lét Pósturinn ekki þar við sitja heldur hafi líka verið blásið til leiks með nokkrum laufléttum spurningum sem tengdust Valentínusardeginum og þar hafi greinilega komið í ljós að margir séu rómantískir og ætli að sýna það í verki á degi ástarinnar.
„Við fengum um eitt þúsund svör og sögðust 90% þátttakenda ætla að gleðja einhvern á Valentínusardaginn, sem okkur fannst skemmtilegt að sjá. Við spurðum líka hvað væri það rómantískasta sem svarendur gætu hugsað sér að fá sent í Póstbox og þar áttu bónorð, unaðsvörur, frumsamin ljóð, skartgripir, konfekt, gjafabréf í dekur og græjur fyrir veiðimanninn vinninginn á óskalistanum,“ segir Kristín Inga.
Það er því greinilegt að persónulegar gjafir sem komi beint frá hjartanu séu það sem fólk óski sér helst á þessum rómantíska degi.
„Hins vegar kom það okkur á óvart að um helmingur svarenda sagðist ekki eiga von á því að fá neinn glaðning á Valentínusardaginn, svo ég vil hvetja fólk til að halda ekki aftur af ástarjátningunum, koma uppáhalds manneskjunni sinni skemmtilega á óvart og leyfa rómantíkinni að ráða ríkjum í dag. Helst auðvitað alla daga, allt árið um kring.“