Dómsmálaráðherra skipaði í gær Jónas Þór Guðmundsson hæstaréttarlögmann í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjaness og við sama tækifæri setti hann Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmann í embætti dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur til eins árs.
Jónas Þór staðfesti við Morgunblaðið að honum hefði borist skipunarbréf frá dómsmálaráðuneytinu þessa efnis í gær, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið. Skipanin gildir frá 13. mars næstkomandi.
Brynjar var settur í embættið frá og með deginum í dag að telja og staðfesti hann það við Morgunblaðið.
Staða dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur var auglýst frá og með síðustu áramótum, en hæfnisnefnd sem lagði mat á hæfni umsækjenda um embættin skilaði ekki af sér fyrr en fyrir ríflega hálfum mánuði. Hefur niðurstöðu dómsmálaráðherra verið beðið síðan þá.
Voru Jónas Þór og Brynjar metnir hæfastir umsækjenda.
„Það var gengið frá þessu í morgun,“ segir Brynjar, sem segist fullur tilhlökkunar að takast á við verkefnið. Hann hefur reynslu af dómarastörfum frá upphafi lögfræðiferils síns, var fulltrúi hjá embætti borgarfógeta árin 1986 til 1991, en rak eigin lögmannsstofu upp frá því uns hann tók sæti á Alþingi árið 2013.