Lögregla biðlar til almennings vegna skotvopnafundar

Lögregla biður þá sem gætu haft upplýsingar um tilurð skotvopns …
Lögregla biður þá sem gætu haft upplýsingar um tilurð skotvopns að stíga fram. Samsett mynd

Lögreglan biðlar til þeirra sem gætu haft upplýsingar um tilurð skotvopns sem drengir fundu á þaki Laugalækjarskóla í gærkvöldi að koma þeim til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Ef einhver býr yfir upplýsingum um þetta tiltekna skotvopn og tilurð þess þá viljum við endilega benda viðkomandi að koma þeim til lögreglu,“ segir Ásmundur Rúnar Gylfason stöðvarstjóri hjá lögreglunni.

Hann segir það í skoðun hvort eitthvað gefi til kynna að byssan hafi legið lengi á þeim stað sem hún fannst og hvort skotvopnið sé skráð á einhvern eiganda. Rannsóknin er hins vegar á frumstigi og lögregla veiti ekki þær upplýsingar á þessu stigi máls.

Allt undir 

„Rannsóknin miðar að því að átta sig á því hver kom skotvopninu þarna fyrir, hvenær það var gert og í hvaða tilgangi, það er allt undir,“ segir Ásmundur Rúnar.

„Við erum í góðu samstarfi við skólastjórnendur sem eru að vinna myndefni fyrir okkur,“ segir Ásmundur Rúnar en fram komi í máli Jóns Páls Haraldssonar, skólastjóra Laugalækjarskóla að myndefnið nái tvær vikur aftur í tímann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert