Stefán Eiríksson útvarpsstjóri hefur neitað Spursmálum Morgunblaðsins um viðtal vegna hins svokallaða byrlunarmáls. Var það til umfjöllunar í viðtali við Pál Steingrímsson skipstjóra í Spursmálum síðastliðinn föstudag.
„Ég hef engar forsendur til að tjá mig,“ segir hann í skriflegu svari við beiðninni. „Fyrir liggur jafnframt að ríkissaksóknari hefur staðfest niðurstöðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra um niðurfellingu rannsóknar málsins hvað varðar meint brot núverandi og fyrrverandi starfsmanna Ríkisútvarpsins, auk annarra fjölmiðlamanna, gegn friðhelgi einkalífs,“ segir jafnframt í svari útvarpsstjóra.
Í fyrrnefndu viðtali kemur fram, líkt og í opinberum gögnum sem málið varðar, að starfsfólk RÚV tengdist atburðarás þar sem farsími Páls var afhentur án vitundar hans. Tveimur vikum síðar tóku fjölmiðlar að birta fréttir sem tengdust efni sem finna mátti á spjallforritum Páls.
Enn er fjölmörgum spurningum er varða aðkomu starfsmanna RÚV, og eftir atvikum stofnunarinnar sjálfrar, því ósvarað. Er það óháð því að sakamálarannsókn í tengslum við málið hafi verið hætt. Þá er ljóst að lögregluyfirvöld hafa fullyrt að sakborningar í málinu, og útvarpsstjóri sjálfur, hafi tafið rannsókn málsins, en málareksturinn rann að lokum út vegna fyrningarfrests sem leið.
Leitaði Morgunblaðið eftir viðtali við Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttastjóra RÚV í ljósi þess að útvarpsstjóri taldi sér ekki fært að svara spurningum um málið.
Sama var uppi á teningnum í skriflegu svari hans. Segist hann ekki hafa forsendur til þess að tjá sig um málið, enda hafi hann alla sína þekkingu á því úr opinberri umfjöllun og þeim gögnum sem fyrirspyrjandi vísaði til, en þar er um að ræða skýrslutökur lögreglur o.fl. Þrátt fyrir það tjáði Heiðar Örn sig um málið á Facebook-þræði sem vísaði í viðtalið við Pál Steingrímsson í Spursmálum. Þar sagði hann margt við viðtalið að athuga og fullyrti að vitnisburður konunnar sem Páll sakar um að hafa byrlað sér ólyfjan og afhent RÚV símtæki Páls, hefði verið mjög á „reiki“. Sú fullyrðing fréttastjórans stangast á við yfirlýsingu lögreglunnar þegar málið var fellt niður. Þar sagði orðrétt: „Framburður sakbornings sem afhenti fjölmiðlum símann hefur verið stöðugur allan tímann sem rannsóknin hefur staðið um að hann hafi afhent fjölmiðlum símann og þar hafi síminn verið afritaður.“
Morgunblaðið leitaði viðbragða Silju Daggar Gunnarsdóttur stjórnarformanns RÚV og spurði hver ætti að vera í fyrirsvari fyrir Ríkisútvarpið þegar kæmi að því að svara fyrir stofnunina gagnvart umræddu máli. Sagði hún ljóst að það væri hlutverk útvarpsstjóra. Það væri ekki í verkahring stjórnar stofnunarinnar.
Næsta grein um málið er væntanleg í Morgunblaðinu á morgun, laugardag.