Viljum ekki að allt sé aðgengilegt öllum

Sigríður segir það verða mikið fagnaðarefni þegar allar upplýsingar verði …
Sigríður segir það verða mikið fagnaðarefni þegar allar upplýsingar verði komnar á sama stað. Samsett mynd

„Við skiljum mjög vel að fólk sé flækt í þessu og myndum mjög gjarnan vilja hafa þetta einfaldara og það er mikil vinna í gangi við að færa allar þessar lykilupplýsingasíður inn á Ísland.is,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is.

Var hún innt eftir viðbrögðum við færslu sem fjölmiðlakonan Eyrún Magnúsdóttir birti á Facebook í vikunni, þar sem hún lýsti upplifun sinni af starfrænum frumskógi heilbrigðiskerfisins. 

„Á ekki tæknin að auðvelda lífið?“

Í færslunni, sem sjá má hér fyrir neðan, segist Eyrún hafa lent í veikindum um miðjan desember og þurfti hún að nýta sér þjónustu heilbrigðiskerfisins í töluverðu mæli. Fara í ótal læknisheimsóknir, blóðprufur og rannsóknir. Á sama tíma hafi hún flækst í frumskógi stafrænna lausna kerfisins. 

Bendir hún á að unnið sé í mörgum kerfum sem tali ekki saman og að upplýsingar um bókanir og niðurstöður flæði illa á milli kerfa og stofnana, og til sjúklinga.

Vísar hún í hin ýmsu smáforrit og vefsíður sem sjúklingar þurfa að notast við til að fá upplýsingar og niðurstöður. Þar á meðal Heilsuveru.is, Sjúkra.is, Ísland.is og Landspítala-appið.

„Sem betur fer var ég ekki alvarlega veik og sem betur fer er ég sæmilega tæknifær. Ég skil ekki hvernig fólk sem er kannski ekki tæknilega sinnað og mikið veikt á að hafa orku í að standa í þessu eða andrými til að setja sig inn í þetta. Á ekki tæknin að auðvelda lífið?“ skrifar Eyrún í færslunni.

Viljum ekki að allt sé aðgengilegt öllum

Sigríður segir að það verði mikið fagnaðarefni þegar allar upplýsingar verði komnar á sama stað, en unnið er að því að sameina allar upplýsingar um heilsufar inni á vefsvæðinu Ísland.is sem einnig er hægt að sækja sem smáforrit. 

Hún bendir þó á að ekki sé ekki gott að hafa upplýsingar of aðgengilegar og mikilvægt sé að einhverjar hindranir séu til staðar. Ekki sé alltaf heppilegt að öll kerfi tali saman.

„Með samtengingar upplýsinga, menn verða að muna að það er heilmikið sem er læsilegt á milli starfseininga. En við viljum ekki hafa það þannig að allt sé aðgengilegt öllum.“

Heilbrigðisstarfsfólk þurfi til að mynda alltaf að gefa skýringar á því þegar það flettir upp upplýsingum um sína skjólstæðinga.

„Maður þarf alltaf að gæta öryggis- og trúnaðarsjónarmiða á móti.“

Alltaf á að upplýsa sjúkling um niðurstöður

Hvað varðar niðurstöður sem birtast sjúklingum rafrænt segir hún skýrar leiðbeiningar um það hjá heilsugæslunni að einnig eigi að upplýsa sjúklinga um niðurstöðurnar með samtali eða skilaboðum.

„Þó að til dæmis blóðprufuniðurstöður séu aðgengilegar á Landspítala-appinu eftir þrjá sólahringa þá á engu að síður að upplýsa fólk um niðurstöðurnar. Maður þarf að ljúka samskiptunum með því að senda einhverjar upplýsingar.“

Hún segir að í annríki dagsins sé það hins vegar ekki alltaf forgangsatriði að upplýsa um niðurstöður sem eru eðlilegar. Það eigi engu að síður að gera það.

Sigríður segir ýmsa hafa haft áhyggjur þegar ákveðið var að niðurstöður rannsókna skyldu birtast sjúklingum í Landspítala-appinu, að það myndi skapa mikið álag og að sjúklingar yrðu órólegir.

„En þetta hefur bara reynst mjög vel. Þannig ég held við verðum að átta okkur á því að skjólstæðingur á sjúkraskrána og allar sínar upplýsingar, en maður vill hafa smá tíma til að bregðast við ef eitthvað er afbrigðilegt. Þess vegna er smá töf á birtingunni.“


Oft einfaldlega engir tímar lausir

Varðandi tímapantanir á netinu segir Sigríður vandamálið vera að ekki sé nægt framboð á tímum. Oft séu einfaldlega engir tímar lausir. Stundum detti þó inn lausir tímar sem hafi verið afbókaðir.

„Tæknilega er möguleikinn til staðar og það er alltaf einstaka bókun sem dettur inn, en það eru bara engir tímar. En við erum að fara meira út í að bregðast við skorti á tímum með því að biðja fólk um að senda okkur erindi í gegnum Heilsuveru og koma fólki þannig áfram.“

Heilsugæslan á fulltrúa í starfshópi sem vinnur að því að færa upplýsingar yfir á Ísland.is. Meðal annars er verið að fara yfir hvernig skilaboð til skjólstæðinga munu birtast og útfæra netspjall Heilsuveru.

„Auðvitað myndum við vilja sjá þessi tæknimál gerast miklu hraðar, það er ekkert launungamál, og oft eru einfaldir hlutir alltof tafsamir, því miður.“


Sjúklingar fái sjúkraskrár í símann

Jón Magnús Kristjánsson, læknir og aðstoðarmaður Ölmu Möller landlæknis, sagði í Kastljósi í gærkvöldi þróun stafrænna lausna hafa farið hratt af stað og sprottið upp á mismunandi stöðum vegna ólíkra þarfa. 

Í Covid hafi til að mynda verið ákveðið að koma á öflugri tengingu í gegnum Heilsuveru til að geta komið upplýsingum til sjúklinga á stafrænan hátt. Á sama tíma hafi Landspítala-appið verið í þróun í öðrum tilgangi. Svo hafi verið tekin ákvörðun hjá hinu opinbera um að Ísland.is yrði miðstöð fyrir stafrænar upplýsingar. 

Hann sagði það ofarlega á verkefnalistanum hjá nýjum heilbrigðisráðherra, að bæta kerfin bæði gagnvart notendum og heilbrigðisstarfsfólki.

Þá greindi hann frá því að íslendingar væru þátttakendur í samevrópsku verkefni sem byggir á því að staðla hvernig upplýsingar eru skráðar. Með því verði hægt að búa til útdrætti úr sjúkraskrám sem notendur geti haft aðgang að í símanum sínum í gegnum Ísland.is. Markmiðið sé að fólk geti sjálft deilt upplýsingum, til að mynda með heilbrigðisstarfsfólki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert