Vill jafna kostnað röntgenmyndatöku af brjóstum

Alma telur heilbrigðisráðuneytið hafa komist að góðri og skynsamlegri niðurstöðu …
Alma telur heilbrigðisráðuneytið hafa komist að góðri og skynsamlegri niðurstöðu varðandi breytingar á reglugerð um gjald fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum vegna krabbameinsleitar. Samsett mynd/mbl.is/Eggert

Alma D. Möller heilbrigðisráðherra hefur gert tillögu að breytingum á reglugerð um gjaldtöku fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum vegna krabbameinsleitar. Leggur hún til að allir sjúkratryggðir greiði 500 kr. fyrir myndatöku einu sinni á ári, óháð því hvort myndatakan er vegna lýðgrundaðrar skimunar, eftirlits í kjölfar krabbameinsleitar eða liður í eftirliti kvenna í áhættuhópi, vegna BRCA arfgerðar.

Gjald fyrir lýðgrundaða skimun fyrir krabbameini í brjóstum var lækkað í haust til samræmis við gjald fyrir leghálskrabbameinsskimun. Fór gjaldið úr rúmlega 6.000 krónum niður í 500 krónur. Gjald sjúklinga fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum sem ekki er liður í lýðgrundaðri skimun hélst þó óbreytt og er það um 12.500 kr.

Telur breytinguna mikilvæga

Brakkasamtökin hafa þráfaldlega gagnrýnt að konur í áhættuhópi fyrir brjóstakrabbameini vegna BRCA arfgerðar greiði ekki sama gjald fyrir röntgenmyndatöku af brjóstum vegna nauðsynlegs eftirlits og greitt er vegna lýðgrundaðrar skimunar.

Samtökin hafa meðal annars bent á að um sams konar myndatöku sé að ræða sem og sama tækjabúnað og þjónustu. Hafa samtökin einnig bent á að gjaldið sé það hátt að það sé hindrun fyrir sumar konur í áhættuhópnum sem mæti þar með ekki í nauðsynlegt eftirlit.

Athugasemdir hafa einnig borist frá Krabbameinsfélaginu er varða konur sem þurfa á eftirliti að halda eftir meðferð við brjóstakrabbameini einu sinni á ári í fimm ár eftir að lokinni meðferð.

„Ég hef farið vel yfir framangreind sjónarmið og átti einnig gagnlegan fund með Brakkasamtökunum 30. janúar síðastliðinn. Þau rök sem hafa verið færð fram til breytinga á gjaldtökunni tel ég mikilvæg. Ég setti því af stað vinnu í ráðuneytinu til að fara í saumana á málinu og tel okkur hafa komist að góðri og skynsamlegri niðurstöðu,“ er haft eftir Ölmu úr fréttatilkynningu heilbrigðisráðuneytisins.

Það er mat heilbrigðisráðuneytisins að forsendur séu til að framkvæma þessar breytingar. Réttur sjúkratryggðra til að greiða 500 krónur fyrir röntgengmyndatöku vegna krabbameinsleitar í brjóstum verði þannig rýmkaður og taki ekki aðeins til lýðgrundaðrar skimunar eins og áður heldur gildi jafnt um alla sjúkratryggða – að hámarki einu sinni á ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert