Borgin svarar: „Við þurfum að grípa betur inn í“

Steinn segist ekki efast um að málið hafi verið til …
Steinn segist ekki efast um að málið hafi verið til umræðu inni á öllum menntastofnunum landsins. mbl.is/Karítas

Nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar kveðst hafa miklar áhyggjur af stigvaxandi ofbeldisvanda meðal ungmenna. 

Hann tekur undir með kennurum og starfsfólki Breiðholtsskóla sem sendu í gær frá sér yfirlýsingu þar sem kallað var eftir tafarlausum aðgerðum ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokki.

Morgunblaðið og mbl.is greindu á mánudag frá alvarlegum ofbeldis- og eineltisvanda í árgangi á miðstigi í Breiðholtsskóla. Hafa nemendur verið beittir andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi af hálfu samnemenda.

Umfjöllunin hefur vakið mikla athygli og í kjölfar hennar átti sviðsstjórinn fund með stjórnendum Breiðholtsskóla í gærmorgun.

Hann segir það ljóst að eitthvað þurfi að gera.

„Rosalegt áhyggjuefni“

„Þetta er rosalegt áhyggjuefni og við þurfum að spyrna fastar við,“ segir Steinn Jóhannsson, nýr sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. 

Foreldrar sem Morgunblaðið ræddi við hafa í nokkur ár reynt að vekja athygli menntayfirvalda á vandanum.

Málið mun hafa verið í ferli hjá skóla- og frístundasviði en foreldrar sem mbl.is hefur rætt við segja að ekki sé búið að bregðast við með fullnægjandi hætti og að vandinn sé enn mikill.

Þau úrræði sem borgin er með – eru þau nógu róttæk þegar það eru stærri vandamál til staðar?

„Nú get ég ekki sagt hvort þau séu nógu róttæk, en þegar við skiptum okkur af þá teljum við okkur vera að vinna af heilindum og gerum eins vel og við getum. Svo kemur í ljós kannski eftir á að við getum gert betur og þá þurfum við að bregðast við því þegar næsta mál kemur upp,“ segir Steinn.

„Þetta er bara heil lærdómskúrfa fyrir okkur, það sem við erum að upplifa núna og það sem við erum að ganga í gegnum.“

Hægt að gera betur

Hann heldur áfram:

„Eins og ég sagði skýrt við skólastjórnendur, þá veitum við allan þann stuðning sem þörf er á. Nú er ég mjög nýkominn til starfa. Það mun ekki standa á okkur á sviðinu að styðja vel við það sem er að gerast í Breiðholtsskóla. Vissulega er það þannig að þetta er stórt vandamál. Þetta felur í sér margar áskoranir og við ætlum að reyna að takast á við þær.“

Hann tekur fram að málið sé búið að vera í ferli frá því í haust en að hægt sé að gera betur.

„Við þurfum að grípa betur inn í.“

Eigum ekki að setja börn í þá stöðu að þeim líði illa

Er forsvaranlegt að neyða börn til að vera í bekk með þeim sem er að beita þau ofbeldi?

„Auðvitað er það þannig að það gilda ákveðin lög í landinu, við erum með aðalnámskrá grunnskóla og börn eiga rétt á því að stunda nám. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða á hverjum tíma í samræmi við eðli hvers atviks sem kemur upp og mismunandi viðbrögð á hverjum tíma eftir eðli atvika.

Ég held að ég geti ekki svarað því skýrar. En auðvitað eigum við ekki að setja börn í þá stöðu að þeim líði illa. Hvert mál er öðru ólíkara þannig að mismunandi viðbrögð eru við mismunandi málum.“

Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið …
Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá málinu í byrjun vikunnar. mbl.is/Karítas

Barn á að finna til öryggis

Við erum með grunnskólaskyldu á Íslandi og börn upplifa sig ekki örugg í skólanum. Hvernig líður ykkur að heyra þetta?

„Ég sagði það nú bæði við stjórnendur og foreldri í morgun að okkur líður ekki vel yfir þessu. Alls ekki. Það á ekkert barn að finna til óöryggis þegar það fer í skólann. Sama á við um foreldra, þeim á ekki að líða illa yfir því að senda börnin sín í skólann og vita að mögulega geti eitthvað gerst þar.

Þetta er eitthvað sem við þurfum að takast á við í menningunni hérna á Íslandi, ekki bara Reykjavíkurborg heldur allt samfélagið, öll sveitarfélög á landinu, þá er ég líka að tala um mennta- og barnamálayfirvöld.“

Allir fái tækifæri til að njóta sín

Er stefnan skóli án aðgreiningar kannski ekki að virka? Þurfum við kannski að horfa frá þeirri stefnu?

„Þetta er mjög erfið spurning og það sem að við viljum fyrst og fremst gera – ég vil benda á að Ísland er komið einna lengst í Evrópu í þessum málum. Önnur lönd eru langt á eftir okkur.“

Í hvaða málum?

„Í menntun án aðgreiningar, við erum komin langt á undan flestum nágrannalöndum okkar í þessum málum. Við erum ótrúlega stolt af því. Auðvitað á börnum að líða vel í skólunum en við skulum ekki gleyma því að þarna erum við með börn sem eru að beita önnur börn ofbeldi. Þetta er rosalega vandmeðfarið málefni. Það þarf að taka vel á þessu. En um leið viljum við líka fara mjög varlega því þetta eru börn sem eiga í hlut og gæta þess að allir fái tækifæri til að njóta sín.“

Fleiri ráðgjafar, fleiri stuðningsfulltrúar

Reykjavíkurborg er með metnaðarfulla menntastefnu, þið eruð með eineltisáætlun og ofbeldisáætlun. Miðað við þær sögur sem við höfum heyrt frá Breiðholtsskóla þá virðist þetta annað hvort ekki vera nóg eða þá að úrræðin sem eru til staðar virðast ekki vera þannig að það sé hægt að framfylgja markmiðunum í menntastefnunni.

„Ég held að við séum að ná flestum markmiðunum í menntastefnunni. Við erum afar stolt af þessari afar framsæknu menntastefnu sem við rekum hérna. En við erum líka að komast að því, og það er þannig með allar stefnur og áætlanir, að stundum dugar það ekki til og það þarf að bæta í og það er einmitt það sem við ætlum að gera. Það er ekkert annað í boði,“ segir Steinn.

„Við þurfum að auka stuðninginn í miðstöðvunum, við þurfum að vera viðbúin því að senda fleiri ráðgjafa í skólana, mögulega þurfum við að fjölga kennurum í vissum hópum þar sem aðstæður eru þess eðlis að alvarleg agavandamál eru til staðar og börnum líður ekki vel, við þurfum að senda fleiri stuðningsfulltrúa inn. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða í samhengi við þessa heildarmynd sem við erum að sjá þarna brjótast fram.“

Pólitíkin verður að svara

Í yfirlýsingu starfsfólks og kennara Breiðholtsskóla frá því fyrr í dag kom fram að Breiðholtsskóli hefði reynt að setja á laggirnar hegðunarver en að bæði fjármagn og starfsfólk skorti.

En úrræði á borð við hegðunarver, móttökuskóla eða móttökudeildir. Koma þau til greina?

„Þetta er eitthvað sem að ég held að pólitíkin verði að svara. Það er svolítið stórt mál ef við færum að setja á laggirnar móttökuskóla en eitt af því sem við getum vissulega gert er að efla tengslanetin innan skólanna. Við getum fjölgað hegðunarráðgjöfum, við getum aukið stuðninginn frá miðstöðvunum inn í skólana.“

Þess ber að geta að Morgunblaðið og mbl.is óskuðu eftir viðtali við Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur, formanni skóla- og frístundaráðs, en hún neitaði að tjá sig um vandann.

Bar hún fyrir sig viðræður um myndun nýs meirihluta í borgarstjórn og vísaði á einn af tíu upplýsingafulltrúum borgarinnar.

Líklega til umræðu í öllum menntastofnunum

Steinn segir ýmis úrræði til staðar og að sum hafi virkað mjög vel í sumum skólum.

„Ég vil benda á að starfsfólk Breiðholtsskóla hefur verið að vinna frábært starf í erfiðum aðstæðum. Áskoranirnar eru svo fjölbreyttar í skólasamfélaginu, stundum eru áskoranirnar af þeim toga að við þurfum að spyrna fastar við og setja aukinn stuðning í ákveðin málefni og það er eins núna, við þurfum að gera betur.“

Er eitthvað sem ríkið gæti gert til að styðja betur við sveitarfélögin?

„Aðalmálið er að við eigum bara samtal um hvernig aðgerðir við viljum í skólakerfinu og við erum að tala um öll skólastig, hvernig við eigum að bregðast við þessu. Ég veit að mennta- og barnamálaráðherra brennur fyrir skólastarfi. Ég veit að Ásthildur Lóa mun eiga gott samstarf við okkur og alla sem koma að fræðslumálum í landinu. Ég hef fulla trú á því.“

Hefur ráðherra menntamála eitthvað verið í samskiptum við ykkur eftir að þessi umfjöllun kom fram?

„Erna Kristín Blöndal ráðuneytisstjóri mennta- og barnamálaráðuneytis hafði sambandi þegar málið kom upp og ítrekaði að ríki og borg þyrftu að vinna saman að þessum málum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert