Farþegi brást illa við afskiptum lögreglu

Verkefni lögreglu eru fjölbreytt.
Verkefni lögreglu eru fjölbreytt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann í akstri, en hann var grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Einnig var hann sviptur ökuréttindum. Ökumaðurinn var laus eftir sýnatöku og hefðbundið ferli. Farþegi í bifreiðinni brást hins vegar mjög illa við afskiptum lögreglu. Endaði málið þannig að hann var handtekinn og vistaður á lögreglustöð vegna ástands og fyrir að neita að gefa upp nafn og kennitölu. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu þar sem greint er frá verkefnum lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun. 

Þá voru fimm ökumenn stöðvaðir í umferðinni þar sem þeir voru að nota farsíma í akstri.

Lögregla var einnig kölluð til vegna manns sem hafði ráðist á dyraverði í miðbæ Reykjavíkur. Maðurinn var ofurölvi og var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

Þá voru tveir handteknir vegna gruns um fíkniefnalagabrot. Vettvangsskýrsla var fyllt út og aðilarnir lausir að því loknu.

Lögreglustöð þrjú, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, var tilkynnt um líkamsárás á veitingastað, en ekki eru frekari upplýsingar um árásina í dagbókinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert