Myndir: Finnar á vakt yfir Íslandi

Fimmtíu manna flugsveit frá Finnlandi sinnir um þessar mundir loftrýmisgæslu á Íslandi og er það í fyrsta skipti eftir að Finnar gengu í Atlantshafsbandalagið. Finnska sveitin er með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli.

„Þetta er í fyrsta skipti sem við [Finnar] erum hér á Íslandi í þessum erindagjörðum en við höfum reyndar áður komið hingað til æfinga og var það árið 2014,“ segir majorinn Sampo Kojo sem fer fyrir finnsku flugsveitinni. Finnland bættist tiltölulega nýlega í hóp þeirra ríkja sem skipa NATO en Finnar gengu formlega í bandalagið í apríl árið 2023.

„Við erum stoltir meðlimir í NATO og sinnum skyldum okkar á norðurslóðum. Í þessu tilfelli snýr það að öryggi Íslands og íslensku loftrými. NATO á skyldum að gegna í íslensku loftrými og gerir það vel að mínu mati. Finnland stendur sína vakt í þeim efnum,“ segir Kojo og lýsir ánægju með samstarfið við Landhelgisgæsluna. „Íslenska landhelgisgæslan hefur gert okkur lífið auðvelt meðan á dvöl okkar hefur staðið. Við höfum auk þess tekið þátt í björgunaræfingum með gæslunni.“

Vindstyrkurinn er áskorun

„Finnar eru mikil vinaþjóð okkar og þá þekkjum við vel en eftir að Finnar tóku það mikilvæga skref að ganga í NATO höfum við einnig unnið saman á þeim vettvangi. Bætist það ofan á norrænt varnarsamstarf og verkefni tengd norðurslóðum. Mér skilst á mínu fólki að Finnarnir hafi staðið sig afar vel þrátt fyrir að aðstæður hafi stundum verið krefjandi,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra.

Morgunblaðið bar íslenska rokið einmitt undir Lasse Louhela, reyndan flugmann í teymi Finnanna hér á landi. „Í Finnlandi þekkjum við vetrarveður og kulda vitaskuld vel en vindstyrkurinn við Íslandsstrendur hefur komið okkur örlítið á óvart. Vindurinn hefur vissulega sett strik í áætlanir okkar hvað æfingar varðar en ekki stórvægilegt. En þessar aðstæður eru einnig ágæt áskorun,“ segir Louhela sem dvelur hér í sex vikur ásamt samstarfsfólkinu.

Einnig var fjallað um viðveru Finna í Morgunblaðinu á miðvikudaginn og rætt nánar við Þorgerði Katrínu. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert