„Við getum ekki gefið það út. Það eina sem við getum gert er að staðfesta að erindið hafi borist og við munum taka það til athugunar,“ segir Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari í samtali við Morgunblaðið.
Hann var spurður hvernig brugðist yrði við erindi Samtaka skattgreiðenda sem sent var embættinu fyrr í vikunni, en þar var þess krafist að meint brot þeirra stjórnmálasamtaka sem fengið hafa ofgreidda fjárstyrki úr ríkissjóði yrðu rannsökuð. Þess var krafist að héraðssaksóknari beitti þeim úrræðum sem lög um meðferð sakamála kveða á um, komi í ljós að refsilög hafi verið brotin.
Hann kvaðst ekkert geta sagt til um hvenær ákvörðunar embættisins um hver afdrif erindisins yrðu væri að vænta. Það færi eftir verkefnastöðu hjá embættinu og forgangsröðun mála þar á bæ, sem væri reyndar breytileg og tæki mið af þeim erindum sem berast á borð embættisins. Tíminn yrði að leiða í ljós hvernig það færi.
Það fyrsta sem gert yrði væri að greina málið og í framhaldinu tekin ákvörðun um í hvaða farveg það félli.
Tvennt er í stöðunni þegar mál berast héraðssaksóknara. Annaðhvort fer málið til rannsóknar eða því er vísað frá. Ef þannig færi yrði hlutaðeigandi tilkynnt um það, þ.e.a.s. Samtökum skattgreiðenda í þessu tilvilki. Slík frávísun er þó kæranleg til embættis ríkissaksóknara.
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.