Þröstur nýr ritstjóri Bændablaðsins

Þröstur á að baki langan feril í blaðamennsku.
Þröstur á að baki langan feril í blaðamennsku. Ljósmynd/Aðsend

Þröstur Helgason hefur verið ráðinn ritstjóri Bændablaðsins og mun hann taka við ritstjórn miðilsins á næstu vikum.

Í tilkynningu frá Bændablaðinu segir að Þröstur eigi að baki langan feril í blaðamennsku, ritstjórn og stjórnun fjölmiðla.

„Hann var dagskrárstjóri Rásar 1 á RÚV í níu ár en lauk störfum þar í mars 2023. Áður starfaði hann sem blaðamaður á Morgunblaðinu um árabil, þar af sem ritstjóri Lesbókar árin 2001 til 2009. Hann hefur komið að útgáfustarfsemi með ýmsum hætti og síðustu tvö ár rekið bókaforlagið KIND útgáfu. Þröstur er með doktorspróf í almennri bókmenntafræði og hefur sinnt kennslu við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands, auk þess sem hann er höfundur þriggja bóka.“

Þröstur segist hlakka til að taka við Bændablaðinu.

„Bændablaðið er traust og gott blað með mikinn lestur. Ég hlakka til að halda áfram því frábæra starfi sem þarna hefur verið unnið undanfarin ár. Mér finnst vinsældir blaðsins segja mikið um þann góða hug sem landsmenn bera til bænda og málefna landsbyggðarinnar. Mér þykir afar vænt um það traust sem mér hefur verið sýnt með þessari ráðningu og hlakka til að taka við þessu frábæra blaði,“ er haft eftir Þresti í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert