Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins og formaður Verkalýðsfélag Akraness, er allt annað en sáttur við arðgreiðslur bankanna en útlit er fyrir að skráðu bankarnir þrír, Arion banki, Íslandsbanki og Kvika, muni greiða 50 milljarða króna í arðgreiðslur á næstu misserum.
„Það er galið að horfa upp á það að Arion banki, Íslandsbanki og Kvika séu að greiða hluthöfum sínum samtals 50 milljarða króna í arð á næstu misserum – en nú hefur Landsbankinn einnig tilkynnt að hann muni greiða 19 milljarða í arðgreiðslu,“ skrifar Vilhjálmur í færslu á Facebook.
Vilhjálmur segir að samtals muni arðgreiðslur bankanna fjögurra nema 69 milljörðum króna og bendir hann á að sú upphæð sé hærri en kjarasamningarnir kostuðu.
„Til samanburðar var fullyrt að stöðugleikasamningarnir, sem gerðir voru í mars í fyrra og kostuðu 60 milljarða, væru nauðsynlegir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.“
Vilhjálmur segir að þetta fjármagn komi ekki úr lausu lofti. Það sé rifið úr vösum almennings með ofurvöxtum, himinháum þjónustugjöldum og gríðarlegum vaxtamun sem bankarnir græði óhikað á. Hann segir að á meðan heimili og fyrirtæki berjist við að ná endum saman, moki bankarnir hagnaði sínum í vasa fjárfesta í stað þess að lækka kostnað fyrir almenning.
„Ætlar ríkisstjórn sem kennir sig við félagshyggju, réttlæti og jöfnuð að láta þetta átölulaust? Því þessi græðgisvæðing í bankakerfinu er ekkert annað en dulin skattlagning á launafólk, heimili og almenning,“ segir Vilhjálmur enn fremur í færslunni.