Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra segir það brýnt hagsmunamál fyrir Ísland að samkomulag náist um langvarandi og réttlátan frið í Úkraínu á grundvelli alþjóðalaga.
Þetta er haft eftir Þorgerði í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Greint hefur verið frá því að fulltrúar Bandaríkjanna og Rússlands muni funda í Sádi-Arabíu á næstu dögum um hvernig binda megi enda á Úkraínustríðið. Úkraínumenn verða ekki viðstaddir þær viðræður enda var þeim ekki boðið, að sögn BBC.
Í dag lauk öryggismálaráðstefnunni í München en hana sótti Þorgerður auk Kristrúnar Frostadóttur forsætisráðherra og fleiri ráðamanna alls staðar úr heimunum.
Gafst þar utanríkisráðherranum tækifæri til að ræða brýn hagsmunamál Íslands og þróun alþjóða- og öryggismála almennt við starfssystkini sín.
„Ég held að öllum megi vera ljóst að viðburðir helgarinnar og síðustu viku hafa vakið Evrópu til umhugsunar. Það er brýnt hagsmunamál fyrir Ísland að samkomulag náist um langvarandi og réttlátan frið í Úkraínu á grundvelli alþjóðalaga og nauðsynlegt að Evrópa komist að samningaborðinu þegar semja á um málefni sem varða öryggishagsmuni álfunnar allrar,“ er haft eftir utanríkisráðherranum.
„Ísland og önnur bandalagsríki beggja vegna Atlantsála eiga ríkra hagsmuna að gæta að samstarfið innan Atlantshafsbandalagsins verði áfram sterkt. Evrópuríkin munu óumdeilanlega þurfa að axla þyngri byrðar þegar kemur að öryggi Evrópu og friði í Úkraínu og við sjáum að þar er einnig horft til okkar. Það má segja að við höfum enn á ný verið minnt á mikilvægi grunngilda okkar um frið, lýðræði og frelsi sem víða um heim eiga undir högg að sækja.“
Kemur fram í tilkynningunni að Þorgerður hafi átt fundi með utanríkisráðherrum Egyptalands, Filippseyja, Grænlands, Írlands, Moldóvu, Tékklands og loftslagsmálastjóra Evrópusambandsins, og Sviatlana Tsikhanouskaya, leiðtoga lýðræðisafla Hvíta-Rússlands, auk fjölda óformlegra samtala.
Þá hitti hún forsætis- og utanríkisráðherra Palestínu ásamt Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra. Þar lýstu þær „algjörri andstöðu“ við hugmyndir um þvingaðan brottflutning Gasabúa en Bandaríkjamenn og Ísraelsmenn hafa viðrað slíkar hugmyndir síðustu vikuna.
Einnig sótti Þorgerður fundi um öryggismál á norðurslóðum og þróun alþjóðakerfisins og átti fundi með utanríkisráðherrum Norðurlandanna, Eystrasaltsríkjanna og Úkraínu, og með öðrum kvenvarnarmálaráðherrum.