Sjálfstæðismaður sem stýrði umdeildum fundi Heimdallar á föstudaginn segir að engum hafi verið meinaður aðgangur að fundinum og að allir sem mættu á réttum tíma hafi getað kosið um landsfundarlista. Hann segir að farið sé með „alvarlegar rangfærslur“ um sína fundarstjórn.
Mikill hiti var í mönnum á fjölmennum fundi Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, á föstudag. Ekki komust allir sem vildu inn á fundinn en þar var afgreidd tillaga um lista yfir landsfundarsæti félagsins.
Stuðningsmenn Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur höfðu sakað fundarstjórann Albert Guðmundsson um að keyra afgreiðslu á landsfundarlistanum í gegnum fundinn. Albert hefur verið áberandi í störfum fyrir Guðlaug Þór Þórðarson en margir af stuðningsmönnum Guðlaugs hafa nú flykkst á bak við Guðrúnu.
Birta Karen Tryggvadóttir, stjórnarmaður í SUS og stuðningskona Áslaugar, sagði m.a. við mbl.is að ekki hafi verið gefið færi á breytingartillögum. Albert, sem er einnig formaður Varðar fulltrúaráðs flokksins, segir að þær fullyrðingar séu rangar.
Hann sakar nú Birtu um rangfærslur: „Í fyrsta lagi hélt hún því fram að félagsmenn hafi ekki fengið að koma inn á fundinn. Það er alfarið rangt, enda var engum meinaður aðgangur að fundinum.“
Albert segir að fundinum hafi verið frestað um nokkrar mínútur en að ekki hafi verið unnt að fresta honum lengur „af virðingu við tíma þeirra fundargesta sem mættu á réttum tíma“.
Áfram hefði þó verið haldið að innrita gesti eftir að fundur var settur. Yfir hundrað manns hafi verið mættir í salinn þegar fundur hófst en innskráðir félagar á fundinn hafi samtals verið 160 talsins.
„Tekið skal fram að atkvæði fóru þannig að mikill meirihluti, rúmlega eitt hundrað og fimmtíu félagar, greiddu atkvæði með tillögu stjórnar gegn örfáum atkvæðum.“
Albert kveðst hafa óskað eftir því við fundarmenn að þeir héldu almennum umræðum í lágmarki, forðuðust að fara í manngreinarálit um einstaka nöfn í tillögu stjórnar og haga frekar máli sínu þannig að leggja fram beinar tillögur.
„Á engum tímapunkti á fundinum, gaf nokkur fundargestur það einu sinni í skyn að önnur heildstæð tillaga eða breytingartillaga við tillögu stjórnar, lægi fyrir fundinum,“ skrifar Albert.
„Hvorki frá þeim sem tóku til máls, né þeim sem kölluðu fram í. Hafnaði ég því aldrei að taka slíka tillögu til afgreiðslu. Áður en gengið var til kosninga tók ég það sérstaklega fram að aðeins ein tillaga lægi fyrir fundinum. Þetta eru því grafalvarlegar ásakanir sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.“
„Á fundi Heimdallar varð mér snemma ljóst að örfáir einstaklingar ætluðu sér að hleypa fundinum upp, en mikið var um frammíköll,“ segir hann og tekur fram að hann hafi fyrir vikið þurft að halda uppi „agaðri fundarstjórn“.
Á einum tímapunkti hafi hann þurft að hækka róminn og loka mælendaskrá eftir að ljóst varð að „umræður væru tæmdar og engar breytingartillögur lágu fyrir. Enda voru umræður fundarins komnar í öngstræti, en örfáir fundargestir sýndu vanstillta framkomu á fundinum.“
Hann heldur áfram:
„Allar upphrópanir um að illa hafi verið staðið að fundinum eða hann ólöglegur af einhverjum sökum eru ekki á neinum rökum reistar, enda staðfesti stjórn Varðar lögmæti hans fyrr í dag.“