Halda að þeir losni við allt með játningu

​Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í réttarsálfræði við King's College í …
​Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í réttarsálfræði við King's College í London, er einn sjö höfunda greinar um falskar játningar sem birtist í Law and Human Behavior á mánudaginn var. Myndin er frá blaðamannafundi inn­an­rík­is­ráðherra og starfs­hóps um Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­in í mars 2013. Mbl.is/Rósa Braga

„Fyrir tveimur árum ákváðum við að byrja aftur. Ég er þriðji höfundurinn að þessari grein og sá eini sem er utan Bandaríkjanna,“ segir Gísli Guðjónsson, prófessor emeritus í réttarsálfræði við King's College-háskólann í London og sérfræðingur í fölskum játningum, í samtali við mbl.is, en á mánudaginn birtist grein í bandaríska fagtímaritinu Law and Human Behavior sem hann er höfundur að.

Ber greinin hina afdráttarlausu yfirskrift Police-Induced Confessions, 2.0: Risk Factors and Recommendations og er, eins og prófessorinn gefur til kynna með upphafsorðum sínum, framhald annarrar greinar um sama efni – þvingaðar játningar við lögregluyfirheyrslur.

Hróður sálfræðingsins hefur farið víða og þrátt fyrir að njóta nú eftirlaunaára sinna í Bretlandi, þar sem hann lærði á sínum tíma, fæst hann enn við fræðistörf og tekur að sér að meta gildi játninga sakaðra manna og kvenna víða um heim. Ekki er lengra síðan en í september að Gísli ræddi við Morgunblaðið um mál Olivers Campbells á Englandi þar sem dómskerfið mátti lúta höfði og játa að mat Gísla var rétt.

Í fyrra var Campbell sýknaður af manndrápi sumarið 1990 sem hann ekki framdi, en sat engu að síður inni fyrir í ellefu ár. Gísli sagði ítarlega frá málinu í viðtalinu og lýsti því hvernig lögregla hefði ákveðið sekt Campbells sem átti eins derhúfu og fannst á vettvangi. Útilokaði lögregla alla aðra möguleika þrátt fyrir að ekkert vitni benti á Campbell við sakbendingu – ekki einu sinni sonur hins myrta sem horft hafði beint í andlit banamanns föður síns. Campbell var yngri og hávaxnari en óþekktur búðarræningi í Hackney í London sem aldrei svaraði til saka. Það gerði annar maður – saklaus.

„Þarna erum við að setja nútímaþekkinguna fram og segja frá því hvað lesa megi úr vísindunum í dag,“ segir Gísli af greininni sem nú var að birtast, „hvað lögreglunni beri að forðast við yfirheyrslur og hvernig hún geti forðast falskar játningar. Þessi grein verður notuð víða um heim sem leiðarljós í þessum efnum,“ heldur íslenski fræðimaðurinn áfram sem hnekkt hefur fjórum dauðadómum á ferli sínum auk þess að bera kennsl á falskar játningar ótal sakborninga.

Skrifaði grein með Kassin árið 2004

Hann segir greinina að mestu byggja á bandarísku réttarkerfi og þeim aðferðum sem löggæslumönnum þar í landi er heimilt að beita við málsmeðferð sína – sex af sjö höfundum greinarinnar séu enda bandarískir fræðimenn.

„Ég hef unnið töluvert mikið með Saul Kassin [aðalhöfundi greinarinnar], árið 2004 skrifuðum við grein um falskar játningar saman,“ segir Gísli um Kassin sem er prófessor í sálfræði við John Jay College of Criminal Justice-skóla City-háskólans í New York og prófessor emeritus í sama fagi við Williams College í Williamstown í Massachusetts.

„Kassin er leiðandi fræðimaður á sviði falskra játninga í Bandaríkjunum og verk hans þau mest ívitnuðu þar og þessi grein sýnir vel hvaða áhrif vísindin hafa haft á stór sakamál, ekki bara í Bandaríkjunum heldur líka til dæmis á Íslandi, Guðmundar- og Geirfinnsmálin þar og fleiri mál, og líka mál í Bretlandi,“ segir Gísli frá.

Í greininni er mikið vísað til fyrri verka og framlaga höfundanna á sérsviði þeirra og tíundað hver áhrif þess hafa verið á fjölda sakamála og þróun vísindanna, svo sem margra mála Gísla í Bretlandi og á Íslandi síðustu áratugina.

Hverjar eru helstu niðurstöður ykkar greinarhöfunda og hvernig leggið þið línurnar fyrir þær löggæslustofnanir sem hafa munu skrif ykkar til hliðsjónar?

„Við leggjum fram sjö lausnir þar sem sú fyrsta er að allar yfirheyrslur, frá upphafi til enda, séu teknar upp í mynd. Stundum er bara tekið vídeó þegar menn byrja að játa og aðdragandinn ekkert sýndur. Við leggjum til að allar yfirheyrslur séu teknar upp og það verði bundið í lög eða reglugerðir,“ svarar sálfræðingurinn, en eins og lesa má í viðtalinu frá því í september vantaði gögn um yfirheyrslur yfir Oliver Campbell.

„Slíkt getur verið hættulegt“

Þar gerðist eitthvað eftir tíundu yfirheyrslu sem ekki var skráð. Verjandi Campbells fór heim og hugðist sakborningurinn leggjast til hvílu í fangelsinu. Þá vildi lögregla skyndilega fá hann aftur í yfirheyrslu án verjandans og í þeirri yfirheyrslu játar Campbell eftir að hafa neitað öllu með lögmanninn til staðar.

Tókst Gísla að sýna fram á að lögregla hefði lofað Campbell, sem hafði orðið fyrir heilaskaða í æsku og hafði 73 stiga greindarvísitölu, að hremmingum hans lyki ef hann bara játaði.

„Hann hugsaði bara um hvað hann gæti gert til að kom­ast heim, hann vildi bara kom­ast heim. Hann hugsaði ekki lengra, bara um hvað hann gæti gert til að losna und­an þessu,“ sagði Gísli Morgunblaðinu frá í haust sem leið. Campbell játaði, en ellefu ár liðu þar til hann fékk að fara heim.

Lögreglan einsetti sér að sakfella Oliver Campbell, hún var að …
Lögreglan einsetti sér að sakfella Oliver Campbell, hún var að falla á tíma í manndrápsrannsókn og lýðurinn heimtaði brauð og leika, sekan mann fyrir dóm og refsingu. Ljósmynd/Lögreglan í London

Önnur ráðlegging Gísla og meðhöfunda hans að greininni í Law and Human Behavior er aukin notkun málsgagna fram yfir tilgátur lögreglu um atburðarás og vísar Gísli þar til hinna íslensku Guðmundar- og Geirfinnsmála. „Slíkt getur verið hættulegt eins og í þeim málum sást berlega, málsgögnin og vettvangurinn eiga að vera undirstaðan, handtökur geta ekki byggst á hugdettum lögreglu, þær þurfa að byggjast á raunverulegum og áþreifanlegum gögnum,“ segir hann.

Þetta komast þeir upp með

Þriðja atriðið kveður Gísli snúast um heimildir lögreglu við yfirheyrslur og hve langt hún geti gengið í að þvinga grunaða eða beita hann vísvitandi blekkingum. „Í Bandaríkjunum má lögreglan ljúga að grunuðum og segjast hafa gögn um þetta og hitt. Í Bretlandi og á Íslandi er slíkt ótækt, þar má ekki ljúga um gögn sem lögregla hefur ekki. Í Bandaríkjunum er hægt að ginna fólk meira og komast upp með það,“ heldur prófessorinn áfram.

En hvernig kemur slíkt út til dæmis þegar komið er fyrir dóm í Bandaríkjunum, þarf ekki lögreglan að geta staðið skil á gögnum sem hún segist hafa haft undir höndum við rannsóknina?

„Nei, þetta komast þeir upp með af því að þetta er viðurkennd aðferðafræði,“ svarar Gísli, „ef lögreglan segir til dæmis ranglega við grunaðan að hún hafi fingraför hans af vettvangi einhvers brots þá taka dómarar í flestum ríkjum Bandaríkjanna það gott og gilt,“ heldur hann áfram, lögregla þurfi að viðhafa aukið gagnsæi við yfirheyrslur brotamanna frekar en að teyma þá áfram með uppskálduðum gögnum.

„Í fjórða lagi eru til viss vísindi sem snúa að yfirheyrslum, þau heita á ensku „investigative interviewing“ og eru til dæmis notuð í Bretlandi og Noregi til þess að leiða yfirheyrslur í stað þess að hver yfirheyrandi geri bara það sem honum kemur í hug,“ segir Gísli, en fimmta ábending greinar þeirra sjömenninganna snýr að ungum grunuðum brotamönnum.

Gísli segir lögreglu í flestum ríkjum Bandaríkjanna komast upp með …
Gísli segir lögreglu í flestum ríkjum Bandaríkjanna komast upp með að fullyrða ranglega við grunaða brotamenn að hún hafi ýmis gögn um þá sem hún ekki hefur. mbl.is/Árni Sæberg

A játar – B geri það sama

„Þeir sem eru undir 25 ára aldri eru yfirleitt viðkvæmir í yfirheyrslum, í Bretlandi gilda sérstök lög um að þeir sem eru undir 18 ára aldri skuli njóta sérstakrar aðstoðar við yfirheyrslur. Þá er séstakur ráðgjafi viðstaddur sem veitir ýmsar ráðleggingar, til dæmis að biðja um viðveru lögmanns við yfirheyrslur,“ útskýrir Gísli um fimmta þátt greinarinnar. Sama gildir um fullorðna sem þurfa sérstaka aðstoð vegna geðheilslu eða annarra erfiðleika.

Þessir sérfræðingar ráðleggi þó grunuðum ekki á vettvangi lagabókstafsins sjálfs, það sé lögfræðingsins. Aldurstakmark þessarar sérfræðiaðstoðar var að sögn Gísla áður 17 ár, en var hækkað nýlega. „Þarna er meðal annars verið að astoða þann grunaða við að koma því á framfæri sem hann óskar að koma á framfæri við lögreglu í yfirheyrslunni,“ segir prófessorinn til glöggvunar.

„Efni greinarinnar þarf í raun að laga að hverju landi,“ bætir hann við, enda lagaumhverfið ólíkt og refsimál einnig í meðferð austan- og vestanhafs.

Enn fremur segir Gísli þungavigtaratriði að ein játning sé ekki látin kalla fram aðra með því að bera það milli grunaðra, þegar þeir eru fleiri en einn í máli, að grunaði A hafi játað og því sé grunaða B eins gott að gera hið sama.

„Þetta var til dæmis mikið notað í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum á sínum tíma, þar var játning eins notuð til að fá játningar frá öðrum. Um þetta fjallar punktur númer sex í greininni,“ segir Gísli og rökstyður sjötta atriði með því að þegar fjórir hafi játað sé oft auðvelt að knýja fram játningu þess fimmta með því einfaldlega að greina frá játningum hinna. „Álagið eykst þá alltaf og þá er spurt til dæmis „jæja, nú eru allir hinir búnir að játa, hvernig getur þú einn þá haldið áfram að ljúga?““

Sakfellt hvort sem er

„Sjöunda atriðið fjallar svo um játningar í krafti loforða, oftast um vægari refsingu. „Falskar játningar snúast oft um að fólki er talin trú um að það verði sakfellt hvort sem er, en geti hins vegar notið vissrar refsilækkunar með því að játa brotið greiðlega, jafnvel sloppið við dauðarefsingu,“ segir Gísli.

„Þetta hefur auðvitað áhrif og margt fólk heldur að það losni undan öllu með því að játa á sig eitthvað sem það gerði ekki,“ heldur hann áfram.

Sakborningar geti þar með lýst sakarafstöðu sinni fyrir dómi á þann veg að þeir lýsi sig ranglega seka, hér notar Gísli enska hugtakið „plead guilty“, „þetta gera þeir vegna þess að það er búið að telja þeim trú um að þeir geti ekki haldið uppi neinum vörnum í málinu“, segir hann og kveður þungamiðju atriðanna sjö tvímælalaust vera að gera upptökur af yfirheyrslum – og þá af öllum yfirheyrslum.

Gísli hefur getið sér orðstír um allan heim sem sérfræðingur …
Gísli hefur getið sér orðstír um allan heim sem sérfræðingur í fölskum játningum sakborninga og komið að stórum umtöluðum sakamálum. Sjálfur hefur hann ekki búið við það útsýni sem myndin sýnir en Kristinn Ingvarsson, fyrrverandi ljósmyndari Morgunblaðsins, tók myndina af kunnu listfengi sínu gegnum stólbak á heimili prófessorsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Þegar ég var að vinna með játningu í dauðarefsingarmáli í Bandaríkjunum fyrir 25 árum var myndbandsupptaka af játningu sakborningsins lögð fram og hún var mjög trúverðug,“ rifjar hann upp.

Hins vegar hafi það ekki fylgt sögunni – og engar myndbandsupptökur voru heldur til af því – að maðurinn hafði verið brotinn kerfisbundið niður í yfirheyrslum í þrjá daga áður en játningin kom fram. „Þegar ég horfði á játninguna fannst mér hún fyrst mjög trúverðug, en þegar ég fór að athuga málið kom fjöldi óskráðra yfirheyrslna dagana á undan í ljós. Slíkt þarf allt saman að liggja fyrir, allar spurningar og svör við þeim. Það hefur stundum gerst að svörin eru lögð fram eingöngu, en ekki spurningar, og svörin þar með tekin úr því samhengi sem þau upphaflega voru í,“ segir Gísli og kveður slík vinnubrögð beinlínis háskaleg.

Þetta hafi verið algengt áður fyrr, einnig á Íslandi. Málið sem Gísli nefnir hér um upptökuna af játningunni trúverðugu var hann beðinn um að skoða árið 2000. „Maður verður að sjá alla aðförina, það er ekki nóg að sjá bara játninguna, það verður að koma fram hvernig hún var fengin,“ segir Gísli sem hefur, sem fyrr segir, fengið fjórum dauðadómum í Bandaríkjunum hnekkt árabilið 1992 til 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert