Jarðskjálfti af stærðinni 2,8 mældist í Brennisteinsfjöllum klukkan níu í morgun. Skjálftinn fannst á höfuðborgarsvæðinu.
„Þetta virðist hafa verið stakur skjálfti og engin eftirskjálftavirkni,“ segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.
Hún segir ekki óeðlilegt að öflugir skjálftar mælist á svæðinu.
„Við viljum alltaf minna á að í Brennisteinsfjöllum geti orðið stórir skjálftar. Árið 1929 var skjálfti sem var 6,2 að stærð. Þeir geta orðið stærri þarna en vestar á Reykjanesskaganum.“