„Þetta er vel ígrundað verkefni sem við getum notið góðs af. Hér er ekki um massatúrisma eða átroðning að ræða og við sjáum gríðarleg tækifæri í þessu,“ segir Anton Kári Halldórsson, sveitarstjóri í Rangárþingi eystra.
Þekkt fyrirtæki sem sérhæfir sig í ævintýraferðamennsku undirbýr nú byggingu lúxushótels í Fljótshlíð. Fyrirtækið Explora hefur fengið samþykkt deiliskipulag fyrir jörðina Tindfjallahlíð sem áður var í landi Barkarstaða. Hótelið verður reist á einstökum stað með óhindruðu útsýni um sveitina.
Tindfjallahlíð er tæpir 38 hektarar og hófst vegagerð á jörðinni síðasta haust. Lokið verður við hana í vor. Gert er ráð fyrir tveimur byggingarreitum, annars vegar þrjú þúsund fermetra hótelbyggingu á tveimur hæðum með 30 herbergjum fyrir 75 gesti og hins vegar eitt þúsund fermetra starfsmannahúsi. Ekki liggur fyrir hvenær framkvæmdir við hótelið hefjast.
Explora rekur sjö lúxushótel í Síle, Perú, Bólivíu og Argentínu. Að því er fram kemur á heimasíðu fyrirtækisins hefur það verið útnefnt fremsta fyrirtækið á sínu sviði sex ár í röð af World Travel Awards.
Nánar má lesa um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.