Ólöf Ásta Farestveit, forstjóri Barna- og fjölskyldustofu, tekur undir með umboðsmanni barna að aðstaðan á lögreglustöðinni í Flatahrauni í Hafnarfirði, sé óviðunandi fyrir börn. Eins og er sé hins vegar ekki önnur aðstaða í boði til að neyðarvista ákveðinn hóp barna.
Segir hún neyðarvistun í Flatahrauni aðeins notaða fyrir erfiðustu tilfellin og þá aðeins í skamman tíma í senn. Af 34 vistunum sem hafa átt sér þar stað frá því í lok október hafi 30 þeirra varað í sólahring eða skemur. Þá sé hámarksvistunartími þar tveir sólarhringar.
Um neyðarráðstöfun sé að ræða til bráðabirgða vegna þess að álman sem hýsti neyðarvistun Stuðla gjöreyðilagðist í bruna í október, líkt og fram hefur komið.
Fram kom í umfjöllun mbl.is um málið fyrir helgi að börn allt niður í 13 ára hefðu verið vistuð í Flatahrauni í tvo sólarhringa. Í umfjölluninni ítrekaði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, gagnrýni sína á þá ráðstöfun að vista börn á lögreglustöðinni. Sagði hún aðstæður þar algjörlega óboðlegar börnum. Umboðsmaður hefur í tvígang sent barna- og menntamálaráðuneytinu bréf þar sem þessari gagnrýni er komið á framfæri.
Ólöf segir neyðarvistun úrræði til að stoppa börn af og í erfiðustu tilfellunum þurfi einfaldlega öruggt rými þar sem börnin geti ekki skaðað sig eða aðra. Um sé ræða börn sem beiti miklu ofbeldi eða í sýni aggressífa hegðun vegna fíkniefnaneyslu.
„Flatahraun er í raun bara neyðarráðstöfun ef það þarf að stoppa börn af í örskamman tíma áður en þau eru færð upp á Stuðla. Í þessum tilfellum, þar sem börn beita miklu ofbeldi, eru sér hættuleg, öðrum skjólstæðingum okkar og starfsfólki, þá fara þau inn á Flatahraun.“
Eins og kom fram í umfjöllun mbl.is fyrir helgi þá er enn neyðarvistun á Stuðlum, en rými á meðferðardeildinni var stúkað af fyrir slíkt úrræði eftir brunann í október. Þar eru fjögur pláss.
„Þangað fara flestöll börn þegar verið er að stoppa þau af. Það eru einstaka börn sem það rými heldur ekki. Þar eru hefðbundnar tréhurðar, rúm og skrifborð og annað sem þau geta í rauninni stofnað sér í hættu með, eða öðrum skjólstæðingum, því þetta rými er þröngt.“
Ólöf segir það metið í samstarfi við barnaverndaryfirvöld, lögreglu og starfsfólk Stuðla hvort börn fara þangað eða í Flatahraun.
Það er fámennur hópur barna sem þarf að neyðarvista, en að sögn Ólafar eru það oft sömu börnin sem koma aftur og aftur. Starfsfólkið er því farið að þekkja þau.
„Ég deili því alveg með umboðsmanni barna og er algjörlega sammála því, auðvitað eiga börn ekki að vera þarna. En ef við höfum ekkert svona neyðarúrræði, þar sem Stuðlar halda ekki ákveðnum skjólstæðingahópi, þá getum við ekki tekið við börnunum. Við erum kannski svona endastöð.“
Ólöf segir breytingar hafa verið gerðar á húsnæðinu í Flatahrauni áður farið var að taka þar á móti börnum. Til að mynda hafi þurft að byggja utan um allar lagnir við sturtu og vask, svo börnin geti ekki skaðað sig.
„Ef börn koma inn á miklum örvandi fíkniefnum þá er mjög erfitt að leita á þeim í því ástandi, þau eru svo aggresíf. Til að tryggja öryggi þeirra þá má ekkert vera inni í rýminu sem getur valdið þeim skaða. Eins og sæng og koddi sem hægt er að kveikja í, það er hættulegt. Við erum með börn sem eru að gera þetta, eins og við höfum mjög slæma reynslu af. Við erum með börn sem kveikja margítrekað hjá okkur,“ segir Ólöf. Í því samhengi bendir hún á að málmleitartæki nái til að mynda ekki alltaf öllum kveikjurum.
Segir hún að almennt séu rými í neyðarvistun ekki ósvipuð þeim í Flatahrauni. Rúm séu gólfföst og dýnur séu þannig gerðar að þær brenni ekki auðveldlega. Lítið annað sé í rýmunum til að tryggja öryggi barnanna.
Um leið og börnin hafi náð að róa sig, þá hafi þau aðgang að öðru rými þar sem er sjónvarp og tölva.
Ólöf tekur líka fram að alltaf sé starfsmaður með barninu, annað hvort við dyrnar eða hjá því. Barnið sé aldrei lokað eitt inn og látið vera afskiptalaust.
„Ef við erum með eitt barn í neyðarvistun í Flatahrauni þá erum við með þrjá starfsmenn þar. Það er talað við þau, reynt að róa þau með orðum, en við megum beita ákveðnu valdi, eins og að loka, en við reynum að nota starfsfólkið til að fá skjólstæðing til að ná ákveðinni ró.“
Gert er ráð fyrir því að endurbygging neyðarvistunar á Stuðlum taki að minnsta kosti ár, en Ólöf segir þrýst á eins og hægt er að flýta framkvæmdunum.
„Ef einhver kemur með einhverjar aðrar lausnir fyrir þennan skjólstæðingahóp þá fögnum við því. Ef umboðsmaður barna hefði einhverjar lausnir, en við erum öll sammála því að þetta er ekki best fyrir börnin.“
Eigi að hætti að nota rýmið á lögreglustöðinni í Flatahrauni fyrir neyðarvistun þarf sú ákvörðun að koma frá barna- og menntamálaráðneytinu, að sögn Ólafar. Verði úrræðinu hins vegar lokað, án þess að annað komi í staðinn, sé ljóst að ekki verði hægt að taka á móti ákveðnum hópi barna.