Foreldrar lýsa ofbeldinu: „Börn eru lamin í frímínútum“

Hermann segir að hann upplifi ekki að dóttir hans sé …
Hermann segir að hann upplifi ekki að dóttir hans sé örugg þegar hún fer í skólann á morgnana. Hann hefur stefnt borginni. mbl.is/Karítas

Foreldrar fjögurra nemenda á miðstigi í Breiðholtsskóla hafa þungar áhyggjur af ofbeldis- og eineltismenningu sem hefur þrifist í mörg ár í árgangi barnanna, þar sem þau hafa mátt þola bæði andlegt og líkamlegt ofbeldi af hálfu annarra barna.

Þá eru einnig dæmi um að kynferðislegu ofbeldi sé beitt.

Málið hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið greindi frá vandanum á mánudag. Hér neðar, eftir upprifjun af þróun mála síðustu daga, er sú umfjöllun birt í heild sinni.

Aukin hræðsla á meðal kennara

Umboðsmaður barna sagði á þriðjudag að erfitt hefði verið að lesa umfjöllunina, mennta- og barnamálaráðherra kvaðst sama dag myndu skoða hvernig ráðuneytið gæti beitt sér og sviðsstjóri skóla- og frístundaráðs borgarinnar átti fund með skólastjórnendum í kjölfarið.

Formaður skóla- og frístundaráðs, þ.e. kjörinn fulltrúi Framsóknarflokks, neitaði aftur á móti að tjá sig um vandann. Þá steig skólastjóri annars grunnskóla fram og sagðist verða var við aukna hræðslu á meðal kennara og að hlutverk þeirra hefði breyst.

Kennarar og starfsmenn skólans sendu á föstudag frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðust finna til vanmáttar og öryggisleysis innan skólans, og kölluðu eftir tafarlausum aðgerðum af hálfu ríkis og sveitarfélaga. 

Nýr sviðsstjóri skóla- og frí­stunda­sviðs kvaðst þá í viðtali á laugardag hafa miklar áhyggjur af ofbeldisvanda meðal ungmenna, sem færi stigvaxandi. Sagði hann hægt að gera betur. 

Umfjöllunin fer hér á eftir, eins og hún birtist í blaðinu:

Hópur örfárra nemenda með hegðunarvanda er sagður halda árgangi í Breiðholtsskóla í gíslingu. Tvö börn hafa ekki mætt í skólann á þessari önn, þar af stúlka sem hefur varla sótt skólann á þessu skólaári.

Foreldrarnir segja skólann og yfirvöld ekki hafa tekið með fullnægjandi hætti á vandamálinu, sem hafi verið viðvarandi í mörg ár. Umhverfið hefur valdið mikilli streitu og álagi á börnin sem hafa átt í miklum erfiðleikum með að öðlast menntun.

Foreldri eins barnsins segir nánast enga kennslu hafa farið fram á þessu skólaári. Foreldri annars barns segir það ekki treysta sér til að borða í hádeginu í matsalnum án þess að kennari sé viðstaddur. Þá eru sumir nemendur hræddir við að vera einir á ferðinni úti og þá sérstaklega eftir myrkur.

Faðir barns í skólanum hefur nú lagt fram kæru á hendur Reykjavíkurborg fyrir að brjóta gegn lögum um grunnskóla. Er málið komið á borð mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Segir skólann axla ábyrgð

Aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla segir vandamálið meðal árgangsins hafa farið vaxandi og að síðasta vor hafi staðan verið orðin erfið. Á þessu skólaári hafi skólastjórnendum þó tekist að grípa þannig í taumana að vandinn sé orðinn viðráðanlegur. Hann segist bjartsýnn á framtíðina og að skólinn geti nú farið að einbeita sér að námi og kennslu.

Hann segir skólann axla ábyrgð á því starfi sem þar fari fram og að skólastjórnendur vilji ekki gera lítið úr vanda eða áhyggjum foreldra og barna. „Við erum að vinna í þessu máli dag frá degi.“

Í svari skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar (SFS) við fyrirspurn Morgunblaðsins segist SFS ekki kannast við viðvarandi eineltis- og ofbeldisvanda í Breiðholtsskóla.

„Í þessu tilfelli sem er vísað til hefur margt verið gert til að greiða úr vanda í nemendahópi og til að tryggja vinnufrið en eins og gefur að skilja er oft um flókin mál að ræða,“ segir enn fremur í svarinu. Segist SFS ekki geta tjáð sig frekar um málið vegna persónuverndarlaga.

Foreldrar lýsa úrræðaleysi fyrir drengina sem beita ofbeldinu. Það gera …
Foreldrar lýsa úrræðaleysi fyrir drengina sem beita ofbeldinu. Það gera kennarar einnig. mbl.is/Karítas

Ekki örugg í skólanum

Hermann Austmar, faðir stúlku í skólanum, hefur barist fyrir því í nokkur ár að skólinn og yfirvöld taki vandamálið í skólanum traustum tökum og tryggi nemendum öruggt skólaumhverfi. Í samtali við Morgunblaðið segir Hermann að ástandið hafi verið alvarlegt í mörg ár. Svo virðist sem skólinn hafi engin úrræði eða lausnir vegna hegðunarvanda örfárra nemenda, sem bitni á heilum árgangi.

Verða nemendur ýmist fyrir ofbeldi eða fá ekki vinnufrið í skólanum til að einbeita sér að námi.

Dóttir Hermanns hefur orðið fyrir alvarlegu líkamlegu og andlegu ofbeldi. Hefur hún meðal annars verið tekin hálstaki og verið sparkað í andlit hennar.

Hermann segir dóttur sína upplifa svo mikla streitu að hún eigi erfitt með að læra, hún meðtaki einfaldlega ekki lengur þær upplýsingar sem kennarinn reyni að miðla til nemenda í bekknum. Það sama eigi við um aðra nemendur og segir hann ekki óalgengt að stór hópur fái jafnvel einkunnina 1 í stærðfræðiprófi.

Hermann segir að sér finnist dóttir sín ekki örugg þegar hún fer í skólann á morgnana. Hún sé með brotið sjálfstraust og fái ekki menntun við hæfi. Segir hann nánast enga kennslu hafa farið fram í árganginum frá því að skólaárið byrjaði og hefur það eftir kennara við skólann.

„Það eina sem dóttir mín er að læra núna er að vera þolandi ofbeldis,“ segir Hermann.

Hann hefur margoft óskað eftir því að dóttir hans verði færð um skóla en ítrekað fengið neitun. Borgin hefur nú boðist til að liðka fyrir flutningi hennar á milli skóla þar sem „ekkert vesen væri á henni“.

Nokkrar hópaárásir

Hermann hefur ítrekað leitað til umboðsmanns barna, skóla- og frístundasviðs borgarinnar og mennta- og barnamálaráðuneytisins vegna málsins. Þá hefur hann einnig verið í samskiptum við kjörna borgarfulltrúa.

Fyrsti fundur með skólastjórnendum var haldinn haustið 2019 eftir að dóttir Hermanns var beitt líkamlegu ofbeldi í frímínútum. Ári síðar leitaði hann til skólastjórnenda, SFS og framkvæmdastjóra barnaverndar vegna eineltis og andlegs og líkamlegs ofbeldis sem viðgekkst í árgangi dóttur hans.

Árið 2022 fundaði Hermann ítrekað með svonefndri Suðurmiðstöð borgarinnar – sem á að veita þjónustu, upplýsingar, stuðning og ráðgjöf á sviði velferðar-, skóla- og frístundamála – vegna vaxandi samskiptavanda innan hópsins og ofbeldisvandans. Hermann kvartaði sömuleiðis til skólayfirvalda og barnaverndar eftir að dóttir hans varð fyrir líkamlegu ofbeldi í íþróttatíma. Þá sendi hann einnig kæru til mennta- og barnamálaráðuneytisins, þar sem hann sagði skólann ekki ná að tryggja öryggi nemenda á skólatíma.

„Börn eru lamin í frímínútum. Það er ekkert eðlilegt við það að það séu búnar að vera nokkrar hópaárásir í þessum árgangi,“ segir hann.

Uppgefinn á baráttunni

Í tölvupósti nýrra umsjónarkennara bekkjarins í byrjun þessa skólaárs til foreldra var tekið fram að margt þyrfti að laga varðandi vinnusemi, framkomu og hegðun ákveðinna nemenda, og var boðað til hegðunarátaks.

Í nóvember á síðasta ári hafði Hermann svo samband við nokkra borgarfulltrúa, borgarstjóra, skóla- og frístundasvið borgarinnar og barnavernd og tilkynnti þeim að börnin í árganginum hefðu ekki getað sinnt námi í marga mánuði vegna hegðunar- og ofbeldisvanda.

Í desember óskaði Hermann eftir formlegri aðkomu svokallaðs landsteymis, sem starfar á grunni nýrra farsældarlaga, og umboðsmanns barna. Í sama mánuði voru foreldrar boðnir til fundar með skólanum og upplýstir um slæma námsstöðu, félagsleg vandamál og agaleysi.

Árganginum hefur nú verið skipt upp í þrjá hópa, annars vegar tvo stóra bekki og síðan einn minni bekk með sérkennslu. „Dóttir mín er í öðrum stóra hópnum þar sem er hægt að kenna. Síðan er annar stór hópur og miðað við samtöl mín við kennara er ekki að fara fram mikil menntun þar ef einhver.“

Hermann segist þreyttur og nánast uppgefinn á baráttunni. Vandamálið sé þó svo yfirgengilegt að ekki sé hjá því komist að halda áfram.

Hann segir ástandið í bekk dóttur hans hafa batnað en að vandamálið sé þó ekki úr sögunni. Börnin glími enn við vandamál sem hafi áhrif á námið, sökum umfangs hegðunarvandans og ofbeldisins. Þá hefur hann áhyggjur af því að engar áætlanir séu uppi hjá skólayfirvöldum, um hvernig þau sjái fyrir sér að vinna upp það nám sem nemendurnir hafa misst úr. Hann hefur nú lagt fram kæru á hendur Reykjavíkurborg þar sem skólinn er sagður hafa brugðist nemendum þegar kemur að öryggi og menntun þeirra.

Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið …
Ofbeldisvandinn í Breiðholtsskóla hefur vakið mikla athygli eftir að Morgunblaðið og mbl.is greindu frá málinu. mbl.is/Karítas

Í leyfi í tvo mánuði

Morgunblaðið ræddi við þrjá aðra foreldra sem eiga börn í árganginum. Þeir vildu ekki koma fram undir nafni. Þar á meðal er móðir barns sem hefur mátt þola andlegt, líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi af hálfu samnemanda. Hefur ofbeldið verið viðvarandi mestan hluta skólagöngu barnsins.

Í byrjun desember var barnið sett í leyfi frá skóla m.a. vegna þess að Breiðholtsskóli taldi sig ekki geta tryggt öryggi þess. Átti leyfið að ná fram að jólafríi. Í byrjun febrúar hafði barnið ekki enn fengið að snúa aftur í skólann.

„Hann er bara heima. Ég náttúrulega get ekki sinnt mínu námi eins og ég ætti að gera, af því að ég verð að vera heima. Hann er ekki að fá neina menntun. Hann er ofboðslega brotinn eftir þessa framkomu skólans og náttúrulega líka framkomu drengjanna. Hann er ofboðslega kvíðinn og þorir varla út úr húsi. Þetta er í rauninni orðið ofboðslega alvarlegt ástand,“ segir móðir barnsins.

Hún segir ofbeldið hafa verið viðvarandi síðustu ár.

„Nema hvað að nú eru strákarnir farnir að beita ofbeldi eins og fullorðnir menn. Það er verið að sparka í andlit, sparka í höfuð, sparka í maga. Þetta er orðið ofboðslega ljótt ofbeldi núna.“

Hefurðu leitað áður til skólayfirvalda?

„Já, margoft. Til dæmis þegar hann var áreittur kynferðislega í öðrum eða þriðja bekk. Þá horfði kennarinn framan í mig og sagði: „Oh, strákar verða alltaf strákar“.“

Upplifir þú að skólinn taki þetta ekki nógu alvarlega?

„Ég held að þau geri sér alveg grein fyrir alvarleikanum. Ég held að það sé meira bara úrræðaleysi. Þau eru ekki að fá þá hjálp sem þau þurfa til að hafa stjórn á þessum aðstæðum.“

Málið viðkvæmt

Hún segir foreldra margra nemenda í árganginum hafa verið meðvitaða um ástandið lengi. Þetta sé aftur á móti afar viðkvæmt mál enda eigi grunnskólabörn í hlut. Nú sé málið orðið það alvarlegt að ekki sé hægt að sitja lengur og bíða. Foreldrar séu búnir að fá sig fullsadda af því að horfa upp á vandamálið ágerast.

Á fundi með aðstoðarskólastjóra Breiðholtsskóla í síðustu viku fékk hún loks upplýsingar um nýtt úrræði fyrir son sinn, sem hefur ekki verið í skóla frá því í byrjun desember.

„En það er enn þetta úrræðaleysi gagnvart þessum drengjum sem beita þessu ofbeldi. Það eru engin úrræði fyrir þá. Þeir fá bara að vaða þarna uppi og beita þessu ofbeldi af því að það er ekkert annað til fyrir þá.“

Frá því að barninu var vikið úr skóla í byrjun desember hefur móðirin haft samband við Sjónarhól, sem er ráðgjafarmiðstöð fyrir foreldra, og landsteymið svokallaða. Hún segist engin svör hafa fengið nema frá Sjónarhóli.

„Ég er bara buguð. Þetta er stöðug barátta. Ég er búin að vera í stöðugri baráttu í sjö ár.“

Íhugaðir þú einhvern tímann að láta barnið þitt skipta um skóla?

„Ég hef mjög oft íhugað það en það er einhvern veginn þessi hræðsla um að ástandið sé hugsanlega eins slæmt annars staðar. Þá er ég að raska umhverfi hans. Við búum hérna af ástæðu. Skólinn er bara hér rétt fyrir utan. Mér finnst hans réttur að geta labbað öruggur í skólann, verið öruggur í skólanum og labbað heim.“

Fer aldrei aftur í skólann

Móðir stúlku sem er í sama árgangi segir dóttur sína hafa átt erfitt með að mæta í skólann í nokkur ár vegna umhverfisins þar.

Dóttir hennar er með frumgreiningu á einhverfu og á erfitt með að vera í umhverfi með miklum látum.

Síðustu ár hefur vandamálið í skólanum farið stigvaxandi og hætti dóttir hennar alfarið að mæta í tíma í upphafi skólaárs. Á meðan hefur stúlkan farið á morgnana til ömmu sinnar og lært þar yfir daginn og þannig fengið frið til að stunda nám.

„Hún vildi aldrei segja af hverju hún vildi ekki fara,“ segir móðirin. „Hún hafði nefnt að það væri mikil truflun í skólanum. Hún er þannig nemandi að hún vill bara fá vinnufrið til að læra, hún er meira að segja ekki hrifin af því ef vinkona hennar er að pikka í hana. Hún vill bara fá vinnufrið.“

Í samtali við mbl.is segist móðirin ekki hafa gert sér almennilega grein fyrir umfangi vandans í skólanum fyrr en í byrjun desember þegar skólinn hélt fund með foreldrum. Hún segir að sér hafi brugðið þegar hún heyrði sögurnar af því sem hafði gengið á og furðar sig á að starfsfólk hafi ekki vakið athygli foreldra á vandanum fyrr.

„Mér skilst að hinir nemendurnir séu mjög illa staddir námslega út af þessari truflun, og jafnvel kvíðnir. Þannig að í rauninni er bara gott að dóttir mín hefur ekki farið í skólann. Hún stendur bara miklu betur námslega þegar hún er að læra heima hjá ömmu sinni.“

Móðirin segist ekki hafa neinn áhuga á að senda dóttur sína aftur í Breiðholtsskóla. Bíða mæðgurnar nú samþykkis frá Reykjavíkurborg þannig að stúlkan geti hafið nám í öðrum skóla, þar sem skólastarf fer fram í gegnum netið.

Hvað finnst þér um að netskóli sé eina lausnin sem virðist vera í boði á þessu stigi?

„Með því að vera ekkert að mæta svona í skólann eins og hún hefur verið að gera hefur hún verið að einangrast félagslega. Hún hefur mætt í skólann og þá stundum mætt heim með vinkonur. Þannig að þetta hélst í hendur, hvernig mætingin var í skólann og hvort hún var að leika við vinkonur.“

Móðirin er bjartsýn á að öflugt hópastarf í nýja skólanum eigi eftir að hafa jákvæð áhrif á dóttur sína og styrkja félagslegar tengingar.

Finnst þér Breiðholtsskóli vera að taka þannig á þessum vanda að þú getir hugsað þér að senda dóttur þína í skólann síðar?

„Nei,“ svarar móðirin og bætir við að stúlkan muni aldrei fást til að mæta þangað aftur.

Forðast að vera ein

Fjórða foreldrið sem mbl.is ræddi við segist hafa þungar áhyggjur af dóttur sinni í Breiðholtsskóla.

Stúlkan byrjaði fyrir ári í skólanum og segist móðirin aldrei hafa heyrt um vandamál eins og þau sem viðgangast í árgangi dóttur hennar. Blöskrar henni að fylgjast með hegðun nemenda og segir hún ótrúlegt að fylgjast með hvað skólinn virðist hafa fá úrræði til að takast á við vandamálið.

Dóttir hennar verður ítrekað fyrir barðinu á þeim nemendahópi sem er rót hegðunarvandans í bekknum. „Nokkrir strákar gera grín að henni, gera grín að því að hún sé mjög grönn, henda úr taupokanum hennar á gólfið. Einn hefur sagt við hana að fara að drepa sig.“

Hún segir þær mæðgur mjög nánar og að hún hafi reynt að leiðbeina dóttur sinni um hvernig best sé að takast á við eineltið sem viðgengst í árganginum.

„Hún er í stelpnahópi, þær standa saman, en hún fer ekki út eftir myrkur á kvöldin. Ég þarf að horfa á hana ef hún labbar ein heim.“

Dæmi eru um að dóttir hennar hafi komið grátandi heim og ekki viljað fara í skólann aftur.

„Kennararnir reyna eins og þeir geta þegar nemendur eru í skólanum, en þetta heldur líka áfram eftir skóla. Sem er ekki á þeirra ábyrgð en spennan magnast upp í skólanum og fylgir nemendum síðan heim.“

Hvernig hefur þú upplifað viðbrögð skólans?

„Fundurinn sem haldinn var í desember, mér fannst hann vera um það að börnin væru léleg að læra og að það væri erfitt að koma þeim í gang. Mér finnst það vera minnsti parturinn af þessu. Barnið mitt þorir ekki að fara í hádegismat nema kennarinn sé nálægt henni, sem gerir það að verkum að það verður ákveðin keðjuverkun. Kennarinn verður þreyttur og hún fær ekki pásuna sína af því að hún þarf að passa barnið af því að hún er hrædd og óörugg. Það er svo röng nálgun að horfa á hvernig þau eru að koma út úr einhverjum prófum.“

Aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla segist bjartsýnni á ástandið nú eftir áramót.
Aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla segist bjartsýnni á ástandið nú eftir áramót. mbl.is/Karítas

Biðlistar í úrræði hjálpa ekki

Björgvin Þór Þórhallsson, aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla, segir ástandið í árganginum ekki hafa verið krísuástand frá byrjun.

„Þetta hefur auðvitað verið fyrirferðarmikill árgangur frá upphafi og það koma alltaf svona árgangar öðru hverju. En ég hef bara verið tvö skólaár í Breiðholtsskóla, þannig að ég get ekki sagt til um það hvernig staðan var undanfarin ár, fyrir mína tíð. En ég stend í þeirri meiningu að þetta hafi verið vaxandi vandi og ég fann það til dæmis á síðasta skólaári, þegar komið var fram undir vor, að þá var þetta orðinn mjög erfiður vandi. Og síðan jókst það í haust þegar skólinn byrjaði,“ segir Björgvin Þór við Morgunblaðið.

Hvernig geta grunnskólar brugðist við þegar nemendur glíma við mikinn hegðunarvanda? Hvaða úrræði eru til staðar?

„Það er mjög flókið ferli að vísa nemanda úr skóla og sveitarfélagið ber ávallt ábyrgð á því að viðkomandi fái skólavist. Þetta eru nemendur á þeim aldri að við myndum aldrei fara út í slík úrræði. Þau úrræði sem standa til boða hjá Reykjavíkurborg eru allmörg, til dæmis Brúarskóli sem tekur við nemendum með vanda og Klettaskóli sem tekur við nemendum með þroskaskerðingu. Svo eru hlutir eins og farteymi þar sem það eru tveir sérfræðingar sem koma og fylgjast með og taka jafnvel nemendur út úr skólanum í nokkrar vikur og eru að sinna honum sérstaklega. Það eru svona úrræði sem eru fyrir hendi en það eru auðvitað biðlistar í þessi úrræði eins og flest önnur. Það hefur svo sem líka ekkert hjálpað okkur.“

Skólinn hafi reynt að leita lausna og leiða til að greiða úr vandanum í árganginum. Segir Björgvin Þór að mjög mikið hafi gerst í haust.

„Og ég tel að við séum komin á þann stað með þennan árgang að við getum farið að einbeita okkur að námi og kennslu. Ég er frekar vongóður og bjartsýnn á framhaldið.“

Varð mjög ljóst um mitt haustið

Hann kveðst ekki geta tekið undir að engin kennsla hafi átt sér stað í árganginum. Aftur á móti hafi vinnufriður ekki verið nægur.

„En með því vil ég alls ekki gera lítið úr ástandinu sem var í haust, þar sem við vorum sífellt að átta okkur á nýjum hliðum á málinu. Breyttum þá skipulagi og tókum nýjar ráðstafanir. Þetta er búið að vera heilmikið ferðalag frá skólabyrjun og fram yfir áramótin.“

Sumir foreldrar upplifa ekki að börnin sín séu örugg í skólanum. Sem aðstoðarskólastjóra, hvernig finnst þér að heyra þetta?

„Eins og ég sagði á fundinum með foreldrunum hafði ég þetta líka á tilfinningunni. Við í stjórn skólans fengum þetta líka á tilfinninguna að það vantaði upp á öryggistilfinningu krakkanna og það breytti mjög miklu í öllum okkar aðgerðum og nálgunum. Það var um mitt haustið þegar þetta varð okkur mjög ljóst, að þetta var staðan.

Og með öryggi og öryggistilfinningu á ég við að nemanda finnst hann ekki geta verið hann sjálfur. Hann veigrar sér við að láta ljós sitt skína, og svo framvegis, þetta er andlegt ofbeldi. Þetta hafði mjög mikil áhrif á aðgerðir okkar og var aðalatriðið í haust, að breyta málum þannig að hverjum og einum gæti fundist hann öruggur. Þá er ég ekki bara að tala um líkamlegt ofbeldi, ég er meira að tala um andrúmsloftið og að fá að vera í friði.“

Nemendur hafi bætt við sig miklum þroska

Telur þú að skólinn sé búinn að gera nóg eða þarf að gera meira?

„Þau eru núna hálfnuð með sjöunda bekk og eiga þrjú og hálft skólaár eftir. Eins og við sögðum við foreldra viljum við taka beygju og hefja ferðalag í áttina að tíunda bekk. Mér finnst núna eftir áramót að ég er orðinn mun bjartsýnni en ég var. Bæði höfum við náð að greina vandann betur og síðan þá hafa þessar aðgerðir skilað þessum árangri sem ég nefndi áðan, það er miklu betri vinnufriður í árganginum.“

Eruð þið með einhverja áætlun um hvernig nemendur geta unnið til baka það nám sem þeir hafa misst af eða orðið eftir á í, sökum þess að það var ekki nægur vinnufriður eða vegna þess að þeir voru ekki að mæta í skólann?

„Já, varðandi það að hafa misst úr vegna þess að nám og kennsla voru ekki í lagi vegna skorts á vinnufriði, þá er nám nemenda á þessum aldri samtengt þroskanum – það er ekki eins og þetta sé pakki sem þau missi úr. Þau hafa á þessu tímabili bætt við sig miklum þroska og í rauninni er meginverkefni okkar að koma þeim til manns og hjálpa þeim að tileinka sér námshæfni, þannig að þau verði bara betri nemendur. Smám saman munu þau ná betri tökum á þessu.

Ég held að þau muni ekki sitja uppi með eyðu í sinni þekkingu eða kunnáttu. En það byggist nú auðvitað á því að þetta gangi vel héðan í frá. Það er í raun það sem ég hef verið að segja við foreldra, við ætlum að ná þessu – sem við erum komin vel á veg með að gera. Síðan eflum við nám og kennslu í framhaldinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert