Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur hafið rannsókn á E. coli-smiti sem kom upp á leikskólanum Mánagarði í október síðastliðnum.
RÚV greindi fyrst frá en Elín Agnes Kristínardóttir, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Smitið var rakið til blandaðs nautagripa- og kindahakks, en það var niðurstaða rannsóknar stýrihóps að meðhöndlun og eldun hakksins hefði ekki verið með fullnægjandi hætti á leikskólanum.
Á fimmta tug barna á leikskólunum veiktust og nokkur þeirra mjög alvarlega.
Þriggja ára stúlka var ein þeirra og var henni haldið sofandi í öndunarvél um tíma.
Komu foreldrar hennar fram í fréttaskýringaþættinum Kveik nýlega og kröfðust þess að lögregla rannsakaði málið, en Félagsstofnun stúdenta, sem rekur leikskólann, hefur viðurkennt mistök og tryggingafélag þeirra viðurkennt bótaskyldu í málinu.