Haglabyssa sem fannst á þaki Laugalækjarskóla tengdist skólanum ekki á nokkurn hátt.
Unnar Már Ástþórsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni, segir að það veiti mikinn létti að snarplega hafi gengið að leysa málið og að um leið og lögregla fékk myndefni af manninum, þegar hann kom byssunni fyrir á þaki skólans, vissi hún um hvern var að ræða.
Skráningarnúmer byssunnar hafði verið afmáð en að sögn Unnars reyndist engu að síður lítið vandamál að finna út úr því hvaðan byssan kom. Er það úr nýlegu innbroti. Maðurinn sem kom byssunni fyrir var handtekinn á föstudag en sleppt síðar um kvöldið.
Að sögn Unnars var byssan sem slík ekki notuð í neinu afbroti.
„Það var búið að afmá skráningarnúmerið en við finnum yfirleitt út úr því þrátt fyrir að búið sé að gera það,“ segir Unnar.
„Ef miðað er við umræðuna sem er í gangi þá er það mikill léttir að málið leystist fljótt. Svo er það líka ákveðinn léttir að finna stolið vopn. Við viljum ekkert hafa svona í umferð og ég held að það sé brýnt að nefna það við eigendur skotvopna, að það er brýnt að skotvopnin séu rétt geymd, í læstum hirslum,“ segir Unnar.
Myndbandsupptökur í Laugalækjarskóla ná tvær vikur aftur í tímann og hafði byssan því verið á þakinu í stuttan tíma.
„Drengirnir sem fundu byssuna eiga stórt hrós skilið fyrir að láta okkur strax vita. Það er algjörlega til fyrirmyndar,“ segir Unnar.