Kona á yfir höfði sér kæru fyrir að hafa ekki orðið við fyrirmælum lögreglu í dag. Lögreglan veitti konunni athygli í fyrstu þar sem hún notaði farsíma án handfrjálsbúnaðar undir stýri.
Lögreglan gaf konunni merki um að stöðva sem hún varð ekki við og þurfti þá að aka í veg fyrir konuna til að fá hana til að stöðva för sína.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna hennar frá klukkan 5 í morgun og til klukkan 17 í dag. Alls voru 113 mál skráð í kerfum lögreglu á tímabilinu.
Ökumaður var handtekinn í Hafnafirði vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Reyndist maðurinn einnig vera sviptur ökuréttindum og var hann fluttur á lögreglustöð í hefðbundið ferli.
Lögreglan sinnti nokkrum verkefnum í dag er vörðuðu innbrot. Tilkynnt var um innbrot í miðbæ Reykjavíkur og er málið til rannsóknar. Þá var einnig tilkynnt um innbrot og þjófnað á vinnusvæði í Hafnafirði, Grafarvogi og Úlfarsárdal. Málin eru öll til rannsóknar lögreglu.