Héraðsdómur Reykjavíkur hefur í annað sinn hafnað kröfu Danóls ehf., félagsmanns Félags atvinnurekenda, um að ógilda bindandi álit Skattsins um tollflokkun á pitsuosti blönduðum jurtaolíu.
Lögmaður Danóls hyggst áfrýja dómnum til Landsréttar.
Í dómi Héraðsdóms er ítrekað vísað í dóm Landsréttar frá fyrra máli Danóls gegn ríkinu vegna endurtollflokkunar á pitsaostinum úr 21. kafla tollskrár í þann fjórða, en sá fyrrnefndi ber ekki tolla en sá síðari háa tolla.
„Fyrir liggur að endurtollflokkunin var gerð þvert á álit tollflokkunarsérfræðinga Skattsins og gekk jafnframt gegn formlegri afstöðu Evrópusambandsins þar sem osturinn átti uppruna sinn. Árið 2023 úrskurðaði Alþjóðatollastofnunin (WCO), að beiðni ESB, að varan ætti heima í 21. kafla,“ segir í tilkynningu frá Félagi atvinnurekenda.
Íslenska ríkið telur sig ekki þurfa að fara eftir ákvörðun WCO og ber fyrir sig dóm Landsréttar. Undir það tekur Héraðsdómur en í dómi Héraðsdóms segir að í dómi Landsréttar felist bindandi fordæmi um hvernig skuli flokka vöruna í 4. kafla tollskrár.
Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður Danóls, segir að ljóst hafi verið frá upphafi að málið þyrfti að fara fyrir Landsrétt og býst hann við því að þar muni málið vinnast að fullu.
„Dómstólameðferð málsins er rétt að hefjast og í raun skiptir engu máli hver vinnur eða tapar á þessu stigi. Það sem máli skiptir er hvernig lokadómurinn hljóðar. Það varð auðvitað að koma í hlut Landsréttar að vinda ofan af fyrri dómi og því liggur leiðin þangað,“ segir Páll.
Evrópusambandið setti í fyrsta Ísland á lista yfir viðskiptahindranir, sem útflutningsfyrirtæki í ESB-ríkjum eru beitt í ríkjum utan sambandsins, vegna ákvörðun Skattsins.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra birti fyrir helgi í samráðsgátt stjórnvalda áform um lagasetningu sem myndi breyta tollflokkuninni aftur til lögmæts horfs.