Lagt hefur verið til að upplýsingafulltrúum á vegum borgarinnar verði fækkað.
Í tillögunni, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram, er lagt til að borgarstjórn samþykki að hagræða sem nemur 100 milljónum króna hvað varði samskiptamál á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.
Fjárheimildir af kostnaðarstað nr. 01288 verði lækkaðar um 100 milljónir og handbært fé hækkað sem því nemur, að því er segir í tillögunni.
Í lok desember 2023 greindi mbl.is frá því að alls væru 17 upplýsingafulltrúar að störfum hjá Reykjavíkurborg, sem gæfu svo út efni merkt ritstjórn Reykjavíkurborgar.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir, samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, sagði svo í samtali við mbl.is degi síðar að það væri ekki rétt að 17 upplýsingafulltrúar störfuðu hjá Reykjavíkurborg. Heldur væru þeir tíu.
Benti hún á að til viðbótar væru sex starfsmenn hjá samskiptateymi Ráðhússins sem ekki væri rétt að nefna upplýsingafulltrúa.
Þar af væru þrír verkefnastjórar viðburða á borð við Menningarnótt, ljósmyndari, vefstjóri, einn sem sinnti efnisgerð og einn sem sinnti myndbandsgerð til fræðslu.
Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að samskiptateymin sjái um stefnumótun í samskipta- og upplýsingamálum og samhæfða og áreiðanlega upplýsingamiðlun um Reykjavíkurborg og starfsemi hennar.
Athygli vakti í síðustu viku þegar kjörinn fulltrúi Framsóknarflokks og formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar neitaði að tjá sig um langvarandi ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla.
Vísaði hún þess í stað á einn af upplýsingafulltrúunum tíu.