Vilja fækka upplýsingafulltrúum og spara 100 milljónir

Sjálfstæðisflokkurinn í borginni segir að spara megi 100 milljónir króna …
Sjálfstæðisflokkurinn í borginni segir að spara megi 100 milljónir króna verði tillagan samþykkt. Samsett mynd/Colourbox/mbl.is/Eggert/Jón

Lagt hefur verið til að upplýsingafulltrúum á vegum borgarinnar verði fækkað.

Í tillögunni, sem borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja fram, er lagt til að borgarstjórn samþykki að hagræða sem nemur 100 milljónum króna hvað varði samskiptamál á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara.

Fjárheimildir af kostnaðarstað nr. 01288 verði lækkaðar um 100 milljónir og handbært fé hækkað sem því nemur, að því er segir í tillögunni.

Skrifa undir merkjum ritstjórnar

Í lok desember 2023 greindi mbl.is frá því að alls væru 17 upp­lýs­inga­full­trú­ar að störfum hjá Reykja­vík­ur­borg, sem gæfu svo út efni merkt rit­stjórn Reykja­vík­ur­borg­ar.

Eva Bergþóra Guðbergs­dótt­ir, sam­skipta­stjóri Reykja­vík­ur­borg­ar, sagði svo í samtali við mbl.is degi síðar að það væri ekki rétt að 17 upp­lýs­inga­full­trú­ar störfuðu hjá Reykja­vík­ur­borg. Held­ur væru þeir tíu.

Ekki upplýsingafulltrúar heldur annað

Benti hún á að til viðbótar væru sex starfs­menn hjá sam­skiptateymi Ráðhúss­ins sem ekki væri rétt að nefna upp­lýs­inga­full­trúa. 

Þar af væru þrír verk­efna­stjór­ar viðburða á borð við Menn­ing­arnótt, ljós­mynd­ari, vef­stjóri, einn sem sinn­ti efn­is­gerð og einn sem sinn­ti mynd­bands­gerð til fræðslu.

Sjá um stefnumótun og hafa yfirsýn yfir upplýsingamiðlun

Fram kemur á vef Reykjavíkurborgar að samskiptateymin sjái um stefnumótun í samskipta- og upplýsingamálum og samhæfða og áreiðanlega upplýsingamiðlun um Reykjavíkurborg og starfsemi hennar.

  • Yfirsýn yfir upplýsingamiðlun allra starfseininga borgarinnar.
  • Umsjón með vörumerkinu Reykjavík/Reykjavíkurborg – Mótun á ímynd, rödd, útliti og efnistökum í ytri og innri samskiptum.
  • Ritstjórn vef- og samskiptamiðla sem starfræktir eru í nafni borgarinnar.
  • Framleiðsla á fjölbreyttu efni um starfsemi og málefni Reykjavíkurborgar.
  • Almannatengsl: Yfirsýn og samþætting allra samskipta við fjölmiðla þvert á borgarkerfið og eftir atvikum svörun fyrirspurna.
  • Samvinna og samskipti við íbúa, stjórnvöld, stofnanir, félagasamtök, einstaklinga og fyrirtæki innanlands og utan.
  • Mörkun, samhæfing og stjórnun samskipta í krísum.
  • Skipulagning og umsjón með helstu viðburðum, svo sem Menningarnótt, Vetrarhátíð og 17. júní.
  • Samstarf við aðra viðburðahaldara í borginni og aðstoð við kvikmyndatökur í borgarlandinu.
  • Fagleg ráðgjöf til starfseininga.

Athygli vakti í síðustu viku þegar kjörinn fulltrúi Framsóknarflokks og formaður skóla- og frístundaráðs borgarinnar neitaði að tjá sig um langvarandi ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla.

Vísaði hún þess í stað á einn af upplýsingafulltrúunum tíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert