Sum börn hafa verið á biðlistum stóran hluta ævinnar

Dæmi eru um að börn á miðstigi í grunnskóla hafi …
Dæmi eru um að börn á miðstigi í grunnskóla hafi verið á biðlista stóran hluta ævi sinnar. mbl.is/Karítas

Engin úrræði virðast oft vera í boði til að bregðast „hreint og beint“ við flóknum og erfiðum málum þar sem börn eiga í hlut.

Foreldrar upplifa ósjaldan að ekki sé hlustað á þá og að þeir fái ekki þjónustu sem barnið þeirra þarf á að halda. Þjónustu sem er í einhverjum tilvikum nauðsynleg og lögbundin.

Þá eru dæmi um að börn á miðstigi í grunnskóla hafi verið á biðlista eftir úrræði stóran hluta ævi sinnar.

Þetta segir Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, sem eru landssamtök foreldra á Íslandi.

Munum gjalda fyrir að trassa málaflokkinn núna

Morgunblaðið og mbl.is greindu í síðustu viku frá alvarlegum langvinnum ofbeldis- og eineltisvanda í Breiðholtsskóla. Foreldrar höfðu í nokkur ár reynt að vekja athygli skólayfirvalda á vandanum, þar á meðal skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar og menntamálaráðuneytisins. 

Málið var í ferli en ekki var gripið til nauðsynlegra ráðstafana, að sögn foreldra.

„Það er mitt álit að ef að við erum að trassa þennan málaflokk, þá munum við bara gjalda fyrir það tíu til fimmtán árum seinna. Fjárútlát í þennan málaflokk í dag munu spara þjóðfélaginu pening og margt fleira,“ segir Sigurður.

„Við þurfum að bregðast við, það mun kosta fjármuni. En við munum fá þennan pening til baka þegar börn þroskast og verða virkir samfélagsþegnar.“

Uppsafnaður vandi í kerfinu

Sigurður, sem hefur starfað hjá Heimili og skóla í sjö ár, segir að mál er varði börn og skóla hafi orðið flóknari á síðustu árum. Hann segir þjónustuþörfina hafa aukist, sérstaklega eftir tíma samkomutakmarkana stjórnvalda.

„Þetta eru misjöfn mál en í og eftir covid þá tekur maður eftir því að málin eru orðin erfiðari og úrræðaleysi talsvert.“

Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla.
Sigurður Sigurðsson, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla. Ljósmynd/Aðsend

Hann bendir á að samkomutakmarkanir hafi haft mikil áhrif á börn og ungmenni og að við séum enn að glíma við afleiðingar þess. Að við sem samfélag höfum ekki rætt nægilega vel þau áhrif sem takmarkanir stjórnvalda höfðu á börn og að við séum nú að vinda ofan af ýmsum málum sem ekki var brugðist við á sínum tíma.

Er þá uppsafnaður vandi í kerfinu?

„Já, ég hef talað við fjölda kennara í kringum covid og eftir. Börnin, sérstaklega miðstigið, komu mjög illa til baka. Það er áfall að vera heima og missa úr þessum mikilvæga þroska.“

Hann tekur fram að vissulega séu mörg fín úrræði í boði og nefnir í því samhengi farsældarverkefnið og landsteymin. Allir þurfi þó að leggjast á árar til að takast á við þennan vanda.

Flott markmið sem við náum ekki að uppfylla

Á vefsíðu Reykjavíkur kemur fram að meginmarkmið menntastefnu borgarinnar sé að öll börn vaxi, dafni og uni sér saman í lýðræðislegu samfélagi sem einkennist af mannréttindum og virðingu fyrir fjölbreytileika mannlífs.

„Veita þarf börnum viðeigandi stuðning og byggja á styrkleikum þeirra og bakgrunni svo að þau geti haft áhrif á nám sitt, líðan og umhverfi,“ segir þar um menntastefnuna. 

„Hlutverk starfsfólks skóla- og frístundasviðs er að koma til móts við þarfir barna og stuðla að alhliða þroska þeirra ásamt því að búa þau undir virka þátttöku í fjölmenningar- og fjölþjóðlegu lýðræðissamfélagi sem tekur örum breytingum,“ segir enn fremur.

Nú erum við með háleit markmið í menntastefnu borgarinnar, það eru líka til ofbeldisáætlanir og eineltisáætlanir. En erum við að ná að fylgja þessu eftir?

„Eins og staðan er í dag þá er svarið nei. Þetta eru flott markmið en við höfum talað um það, og fleiri, að það vantar fjölbreyttara fagfólk inn í skólana á borð við þroskaþjálfa. Eins hefur skortur á talmeinafræðingum gríðarleg áhrif. Við þurfum svolítið að hugsa kerfið upp á nýtt. Við þurfum að auka fjölbreytileika fagfólks í grunn- og leikskólum.“

Foreldrar lenda á veggjum

Sigurður segir að ítrekað birtist fréttir um langa biðlista sem gangi gegn markmiðinu um snemmtæka íhlutun, sem rannsóknir sýni að sé gríðarlega mikilvæg.

„En ef fólk leitar til þjónustuaðila í 2. bekk þá fær það kannski þjónustuna í 5. og 6. bekk. Þannig að börn eru á biðlista stóran hluta ævi sinnar – sem er hreinlega að skemma fyrir.

Það færir líka álagið á foreldra og skólakerfið, og alla sem að koma að degi barnsins. Þegar þetta er orðin svona mikil þörf, þá safnast þetta upp í samfélaginu. Það er mjög erfitt að segja við foreldra að þau verði bara að bíða í tvö til þrjú ár. Hvað eiga þau að gera í millitíðinni?“ segir Sigurður.

„Ég held að allir foreldrar vilji bara hið besta fyrir barnið en lenda á ýmsum veggjum þegar þau leita að aðstoð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert