Guðmundur Helgi Þórarinsson, formaður VM, Félags vélstjóra- og málmiðnaðarmanna, segist ekki sjá hvernig nýgerðir samningar kennara eigi að hafa áhrif á aðra samningagerð á markaði. Hann telur þó að breytt virðismat eigi að gilda um nokkra litla samninga sem VM á eftir að klára við ríkið.
Í hans huga sé ljóst að kennarar hafi verið að horfa aftur í tímann og að ekki hafi verið vilji til þess að standa frá samningaborðinu fyrr en staðið hafi verið við áður gefin loforð.
Fámennir hópar innan vébanda VM eiga eftir að gera kjarasamninga við ríkið í yfirstandandi kjaralotu.
„Kennarar fengu loforð um virðismat starfa sem tvívegis var búið að svíkja. Nú vildu þeir ekki standa upp frá borði fyrr en búið væri að klára. Það er talað um að þarna sé ákveðin leiðrétting í gangi og ég tek bara hattinn ofan fyrir þeim fyrir staðfestu og ákveðni til að fá inn í samning loforð sem gefið var fyrir fjölda ára,“ segir Guðmundur Helgi.
Hann segist ekki sjá það í fljótu bragði hvernig niðurstaða kennarasamninganna eigi að vera vegvísir til framtíðar varðandi aðra samninga.
„Ég get ekki gagnrýnt menn fyrir að fá í gegn gömul loforð,“ segir Guðmundur Helgi.
Að þessu sögðu þá segir hann að sá fámenni hópur VM sem eigi eftir að semja við ríkið vilji fá breytt virðismat á störfum þeirra.
„Þetta er þrír samningar sem við eigum eftir að gera og hóparnir sem þar eru á bak við eru frá 6-7 manneskjum upp í 20 eftir hópum. En það hefur gengið óskaplega erfiðlega að fá ríkið að samningaborðinu,“ segir Guðmundur Helgi.