Fleiri en 30 atriði í Danskeppni Samfés

Mikil stemning ríkti í Danskeppni Samfés í Garðaskóla í Garðabæ …
Mikil stemning ríkti í Danskeppni Samfés í Garðaskóla í Garðabæ á föstudag. Ljósmynd/Samfés

Danskeppni Samfés hefur lengi verið einn af hápunktum viðburða samtakanna og keppnin í ár vakti töluverða athygli fyrir fjölbreytta dansstíla, sem segir í tilkynningu frá samtökunum.

Keppt var í einstaklings- og hópakeppni í tveimur aldursflokkum: 10-12 ára og 13 ára og eldri.

Þátttakendur frá félagsmiðstöðvum víðs vegar af landinu mættu í Garðaskóla á föstudaginn og alls tóku yfir 30 hópar og einstaklingar þátt í keppninni frá yfir 20 félagsmiðstöðvum.

Garðbæingar unnu einstaklingskeppnina

Ásdís Emma Egilsdóttir úr félagsmiðstöðinni Garðalundi/Hofsstaðaskóla var hlutskörpust í einstaklingskeppni 10-12 ára en í hópakeppni 10-12 ára var danshópurinn Martröð úr félagsmiðstöðinni Hólmaseli í Breiðholti hlutskarpastur. Hópinn skipuðu þær Saga, Karítas Hanna, Andrea Ylfa, Anna Marín og Una Rakel.

Alexandra Vilborg Thompson úr félagsmiðstöðinni Urra í Urriðaholti vann þá í einstaklingskeppni 13 ára og eldri en danshópurinn Groovy Gyals úr félagsmiðstöðinni Arnardal á Akranesi vann hópakeppni aldursflokksins. Hópinn skipuðu þær Tinna Björg, Ísabel Bergljót, Monika Margrét, Ariana Selma, Hólmfríður Katrín, Ynja og Katla.

Mikil stemning ríkti á viðburðinum og greinilegt var að þátttakendur höfðu lagt mikla vinnu í atriðin sín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert