Hvað segja sjálfstæðismenn um kjörið?

Ný forysta var kosin í Sjálfstæðisflokknum í gær. Guðrún Hafsteinsdóttir mun leiða flokkinn eftir æsispennandi kosningu og Jens Garðar Helgason verður við hlið hennar sem varaformaður. Það var því vert að leita eftir skoðunum frá hinum ýmsu Sjálfstæðismönnum að degi loknum í gær og fá þeirra álit á hinni nýju stjórn.

Blaðamaður mbl.is var á staðnum og ræddi við nokkra flokksmenn.

Skiptar skoðanir

Dýrunn Pála Skaftadóttir, formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð, leist vel á niðurstöðu kosninganna.

„Ég held að við göngum öll mjög sátt út í dag.“

Auk þess kveðst hún ánægð með varaformanninn, Jens Garðar, sem er einmitt úr Fjarðabyggð.

„Ég er ekkert mjög sáttur. Þetta er ekki beint niðurstaðan sem ég hafði óskað mér,“ segir Birkir Ólafsson, stuðningsmaður Áslaugar Örnu.

Segir hann Guðrúnu skorta „aðdráttarafl“ Áslaugar til að fá fleira fólk í flokkinn.

„En svona er þetta bara. Við verðum bara að halda áfram.“

Næsta verkefni að stækka flokkinn

Elín Káradóttir kveðst afskaplega ánægð með niðurstöður kosninganna, bæði í formannskjöri og varaformannskjöri. „Ég held að þetta verði mjög góð og flott forysta.“

Hún var á leiðinni á Hilton þar sem fagnað var nýja formanninum.

„En svo er næsta verkefni að stækka flokkinn.“

Hefði viljað geta kosið báða kosti

Birgir Ármannsson, fyrrverandi forseti Alþingis og fundarstjóri landsfundarins í ár, segir fundinn hafa verið glæsilegan.

„Ég vona og trúi því að Sjálfstæðismenn gangi sameinaðir af þessum fundi.“

„Ég hefði viljað getað kosið þær báðar,“ segir Þórður Sveinsson og Silja Björg Ísafoldardóttir tekur undir með eiginmanni sínum.

„Þær eru frábærar báðar.“

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir flokkinn hafa staðið frammi fyrir lúxusvandamáli.

„Báðir kostir góðir. Það kom mér á óvart hvað munaði litlu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert