Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir stórt skref fyrir flokkinn að fá sinn fyrsta kvenformann. Nú skipti öllu máli að sjálfstæðismenn gangi samhentir út af landsfundi sem haldinn var um helgina.
„Og ég veit að við munum gera það. Þetta er magnaður fundur sem er að klárast hér,“ sagði Bjarni í samtali við mbl.is í gær eftir að tilkynnt hafi verið að Guðrún Hafsteinsdóttir tæki við formennsku í flokknum eftir nauman sigur gegn Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur.
Bjarni segir sóknarfæri fólgin í að flokkurinn sé í stjórnarandstöðu. Flokksmenn geti talað „án allra málamiðlana“ um stefnumál flokksins.
„Ég held að flokkurinn eigi við þessar aðstæður mikil sóknarfæri. Það er stutt í sveitarstjórnarkosningar sömuleiðis. Þannig að það eru spennandi tímar fyrir flokkinn fram undan.“
Bjarni kveðst stoltur af framkvæmd fundarins, það sé ómetanlegt að stíga niður af sviðinu á landsfundi „þessum góða hópi“.
„Ég hef auðvitað verið lengi að. Og tók þessa ákvörðun fyrir mitt leyti sem var annars vegar persónuleg ákvörðun mín. En ég hafði tilfinningu að það væri gott fyrir flokkinn að fara í forystukjör á þessum punkti, snemma á kjörtímabilinu,“ segir hann og bætir við að sú trú hafi aðeins styrkst eftir þennan fund.
Í ræðu sinni á föstudag tók Bjarni fram að hann væri að hverfa frá, en ekki að hverfa langt. „Ég horfi á þetta sem samfélag sem ég hef tilheyrt í áratugi,“ segir hann spurður nánar út í þetta.
„Það er ekkert þannig að þó maður hætti í forystu í flokki að maður hverfi endilega úr því samfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn er,“ segir hann og tekur fram að hann horfi bjartsýnn til framtíðar flokksins.
Margir velta því sennilega fyrir nú sér hvað taki næst við hjá Bjarna Benediktssyni, sem hefur verið þingmaður í tæp 23 ár og formaður Sjálfstæðisflokksins tæp 16 ár.
Spurður út í næsta kafla svarar Bjarni að hann hafi fengið ráð frá mörgum góðum vinum sínum. „Og þeir eru allir einhuga um það að nú eigi ég ekki að ákveða neitt. Bara stíga niður og hvíla mig og njóta þess að vera með aukatíma með fjölskyldunni,“ bætir hann við.
Hann ætli því að njóta sín smá í fríi. „Það er dálítið skrítið þegar maður fær svona mikinn tíma skyndilega. Ég hef nánast ákveðinn móral að vera ekki stöðugt að alla daga,“ segir sjálfstæðismaðurinn.
„Maður þarf bara að vera mættur í ræktina, klára að þvo þvottinn, skutla börnum á knattspyrnuæfingar. Hversdagsleikinn er tekinn yfir hjá mér.“
Hann segir það stórt skref fyrir flokkinn að fá kvenformann. Sjálfur kveðst hann hafa lagt áherslu á í sinni formannstíð að sýna að konur fái tækifæri í Sjálfstæðisflokknum.
Fleiri konur hafi verið í forystu í flokknum í formannstíð Bjarna heldur en samanlagt í sögu flokksins fyrir hans tíð.
„Það leiðir af því að flokksmen hafa verið að gefa konum aukin tækifæri og svo birtist það okkur núna með þessu kjöri, þar sem voru tvær glæsilegar konur að gefa kost á sér. Glæsilegir frambjóðendur og ég er mjög ánægður með það. Við höfum komist á þann stað án þess að vera með kvóta.“