Stærri hluti tekna af orkumannvirkjum þarf að renna til nærsamfélags virkjana. Þetta sögðu bæði þeir Daði már Kristófersson fjármálaráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, á ársfundi Landsvirkjunar í gær.
Daði talaði jafnframt um að betri sátt yrði að nást um virkjanir og náttúruvernd, en sagði á sama tíma að það yrði að bretta upp ermar og hefja orkuöflun þar sem eftirspurn endurnýjanlegrar orku væri að aukast mikið og ef framboðið stæði í stað myndi það hækka verð. Vísaði hann til þess að miðað við núverandi stöðu í uppbyggingu kæmi aukið framboð ekki fyrr en í fyrsta lagi árið 2027 og því mættu landsmenn búast við því að raforkuverð haldist áfram hátt næstu misserin.
Hörður sagði að auka þyrfti jákvæð áhrif virkjana á nærsamfélög og að núna væri sú skipting ójöfn. Passa þyrfti að tekjur skiptust jafnar til sveitarfélaganna sem næst virkjunum eru. Sagði hann jafnframt að Landsvirkjun gerði reglulega kannanir á viðhorfi landsmanna til fyrirtækisins. Þar kæmi ítrekað í ljós að jákvæðni, sem almennt mældist um 80% í þjóðfélaginu, væri enn jákvæðari í nærsamfélögum virkjana.
Auk Hvammsvirkjunar er Landsvirkjun með þrjú virkjunarverkefni í pípunum. Eitt þeirra er fyrsta vindorkuver á landinu, Vaðölduver, en það bar áður nafnið Búrfellslundur. Sagði Daði að vonandi myndi reynslan af því eyða þeirri tortryggni sem sé gagnvart vindorkuverum. Sló hann því næst á létta strengi og sagði loksins komið að því að vindur kæmi til góða. Sjálfur hefði hann komist að því eftir að hann kom úr námi í Svíþjóð, þar sem hann hjólaði mikið, að „allur vindur á Íslandi er mótvindur“.
Ítrekaði Daði nokkrum sinnum að við uppbyggingu vindorkuvera væri mikilvægt að uppbyggingin væri á markaðsforsendum og að ekki mætti byggja á því að miðla raforkunni án þess að hæfileg greiðsla fengist fyrir hana. Sagði hann þetta lykilatriði þegar kæmi að því að ná sátt um vindorku í nærsamfélögum og þar þyrftu tekjur af virkjunum í meira mæli að renna til þeirra nærsamfélaga þar sem virkjanir eru staðsettar.