Felldu niður rannsókn á föður ríkislögreglustjóra

Rannsókn á Guðjóni Valdirssyni, föður ríkislögreglustjóra var felld niður.
Rannsókn á Guðjóni Valdirssyni, föður ríkislögreglustjóra var felld niður. Samsett mynd

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu felldi niður rannsókn á þeim anga hryðjuverkamálsins er snýr að Guðjóni Valdimarssyni, föður Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur ríkislögreglustjóra. Þetta herma heimildir mbl.is.

Leiddu tengsl feðginanna til þess að ríkislögreglustjóri sagði sig frá rannsókn þess.

Guðjón var, á þeim tíma sem rannsóknin var í gangi, vopnasali og seldi vopn í gegnum vefsíðuna vopnasalinn.net en hún hefur legið niðri frá því rannsókn málsins hófst.

Nafn Guðjóns kom upp í tengslum við rannsókn málsins og gerði lögregla húsleit á heimili hans í kjölfar frásagnar um að hann hefði keypt þrívíddarprentað vopn af Sindra Snæ Birgissyni, öðrum sakborninga í hryðjuverkamálinu. Guðjón neitaði því staðfastlega að hafa keypt slíkt vopn og slíkar ásakanir voru aldrei sannaðar.

173 skotvopn skráð á Guðjón 

Samkvæmt heimildum mbl.is voru 173 skotvopn skráð á nafn Guðjóns þegar húsleitin fór fram. Eins fundust á heimili hans skotvopn sem skráð voru týnd eða óskráð og fleiri en eitt vopn sem skráð voru á hann en voru ekki á staðnum þegar lögregla framkvæmdi húsleit. Gat hann í fyrstu ekki gefið skýringar á því hvers vegna misbrestur var á skráningu skotvopnanna. 

Sagður hafa selt ólöglegt skotvopn 

Í fréttaskýringu Kveiks um viðskipti Guðjóns voru frásagnir frá vopnasölum sem sögðust hafa keypt hálfsjálfvirka riffla af Guðjóni, sem eru ólöglegir á Íslandi, og breytt þeim þannig að þeir yrðu löglegir að nýju. Þá var sagt frá manni sem dæmdur var fyrir vopnalagabrot en hann var með AK 15 hríðskotariffil í fórum sínum sem er ólöglegur á Íslandi. Sagði maðurinn að hann hefði keypt vopnið af Guðjóni á 1,5 milljónir króna.

Við skýrslutöku í tengslum við hryðjuverkamálið er sagt að Guðjón hafi sagt við lögreglumenn að ef þeir vissu hverra manna hann væri myndu þeir ekki vera að skoða hvern krók og kima að leita að vopnum nema þeir væru að reyna að koma höggi á lögreglustjórann, dóttur sína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert