Segjast munu tryggja endurhæfingu við hæfi

Hefur VIRK sent þjónustuþegum upplýsingar þess efnis að tryggð verði …
Hefur VIRK sent þjónustuþegum upplýsingar þess efnis að tryggð verði viðeigandi þjónusta eftir að samningnum við Janus lýkur 1. júní næstkomandi. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Þjónusta við þá sem hafa verið í endurhæfingu hjá Janusi verður áfram tryggð og munu VIRK, heilbrigðisráðuneytið og stofnanir þess vinna að leiðum til að tryggja það á næstu mánuðum, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Hefur VIRK sent þjónustuþegum upplýsingar þess efnis að tryggð verði viðeigandi þjónusta eftir að samningnum við Janus lýkur 1. júní næstkomandi.

Endurhæfingin sé læknisfræðileg

Árið 2023 var gerður þríhliða samningur upp á 320 milljónir króna, milli VIRK, Sjúkratrygginga Íslands og Janusar. Samningurinn var tilraunaverkefni til tveggja ára. Hlutur SÍ var 25% eða um 80 milljónir á ársgrundvelli, á móti 75% hlutar VIRK.

Þá hafa forsvarsmenn Janusar tjáð á samningstímanum að endurhæfingin sem fram fari sé læknisfræðileg endurhæfing og að VIRK eigi því ekki að eiga aðkomu að honum.

Er þetta einhliða mat af hálfu Janusar og stangast það á við faglegt mat sérfræðinga, um að endurhæfingin þurfi að vera bæði læknisfræðileg og starfstengd.

Starfsfólk ætti kost á að flytja á nýja starfsstöð

Hóf ráðuneytið þá viðræður við forsvarsmenn Janusar á þessum grundvelli um hvort færa ætti þá heilbrigðistengdu endurhæfingu sem Janus hefur sinnt inn í rekstur starfandi heilbrigðisstofnunar, þar sem um væri mögulega að ræða samlegðaráhrif í þjónustunni.

Var þá gert ráð fyrir að starfsfólk Janusar ætti kost á að flytja á nýja starfsstöð með verkefninu.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins, Landspítali og Reykjalundur sýndu þessu áhuga, en forsvarsmenn Janusar töldu þessa yfirfærslu ekki geta átt sér stað nema að uppfylltum skilyrðum, og náðist ekki samkomulag um þau í viðræðum.

Þannig liggur fyrir að samningurinn við Janus rennur út 1. júní og verður ekki endurnýjaður.

Heilbrigðisráðuneytið og VIRK hafa sem fyrr segir gefið út að áhersla verði lögð á að tryggja þeim einstaklingum sem notið hafa þjónustu Janusar endurhæfingu við hæfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert