Rannsókn á tildrögum umferðarslyssins sem varð á gatnamótum Vesturlandsvegar og Vestfjarðarvegar síðastliðinn fimmtudag er í fullum gangi að sögn lögreglufulltrúa hjá lögreglunni á Vesturlandi. Barn á öðru ári lést í slysinu en það var farþegi í fólksbifreið sem lenti í árekstri við rútubifreið.
Tveir voru fluttir á bráðamóttöku, annar með þyrlu en hinn með sjúkrabifreið, en ekki er talið að þeir hafi slasast alvarlega og þá var einn fluttur til skoðunar á heilsugæslu.
Á þriðja tug farþega voru samtals í báðum bifreiðunum, um 20 voru í rútunni og þrír í fólksbifreiðinni.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Vesturlandi fer með rannsókn málsins og verða ekki veittar frekari upplýsingar að svo stöddu.