Eva Hauksdóttir, lögmaður, segir að ef niðurstaðan verði sú að blaðamenn megi afrita síma fólks til þess að afla þaðan gagna, þá muni það hafa geigvænlegar afleiðingar fyrir margar starfsstéttir.
Þetta kemur fram í nýju viðtali við hana á vettvangi Spursmála sem vakið hefur mikla athygli.
Þar ræðir hún um hið svokallaða byrlunarmál þar sem sími Páls Steingrímssonar, skipstjóra, var tekinn og afhentur starfsmönnum Ríkisútvarpsins sem síðan komu gögnum úr símanum í hendur Þórðar Snæs Júlíussonar, blaðamanns á Kjarnanum og Aðalsteins Kjartanssonar, blaðamanns á Stundinni. Sá síðarnefndi flutti sig af Ríkisútvarpinu og yfir á Stundina örfáum dögum áður en þáverandi eiginkona Páls byrlaði honum ólyfjan og kom símanum í kjölfarið í hendur Ríkisútvarpsins.
Um þetta segir Eva:
„Ef þetta viðhorf verður ofan á að þetta sé bara allt í lagi þá geta starfsstéttir sem bundnar eru einhverskonar trúnaðarskyldu ekki notað síma eða tölvu í vinnunni. Hugsaðu þér bara afleiðingarnar. Allir sem vinna til dæmis í félagslega geiranum, allt heilbrigðisstarfsfólk, lögmenn, blaðamenn, lögreglan, allt þetta fólk þarf að hætta að nota síma eða tölvu í vinnunni því að...“
Því að blaðamenn hafi rétt á að hnýsast þar inn?
„Já, vegna þess að þessi tæki hýsa og veita aðgang að upplýsingum um annað fólk. Þannig að þótt þér sé skítsama um þitt einkalíf og typpamyndirnar mega bara fara út í kosmósið og allt það, þá sorrý, þetta snýst ekki bara um þig. Þetta snýst líka um fólkið sem þú talar við í tölvupósti og ef þú ert með einhverjar trúnaðarupplýsingar vegna vinnunnar þinnar. Þetta snýst líka um það. Þess vegna getum við ekki skilið þetta eftir í lausu lofti, blaðamenn segja þetta og Samherji segir hitt og Páll Steingrímsson er brjálaður og allt það og svo vitum við ekki neitt. Þó ég telji mig vita það þá veit almenningur það ekki og þess vegna verðum við að fá þetta á hreint.“
Eva telur að afritunina á síma Páls sé ekki hægt að heimfæra upp á verknaðarlýsingu húsbrots samkvæmt almennum hegningarlögum. Hins vegar sé enginn munur í raun á því sem þar gerðist og ef menn myndu einfaldlega afhenda blaðamönnum lykla að heimili þriðja aðila og hvetja þá til þess að gramsa þar í gögnum í von um að finna gögn sem erindi ættu við almenning.
Eva hefur sent stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis erindi þar sem óskað er eftir því að rannsóknarnefnd verði skipuð til þess að fara ofan í þátt Ríkisútvarpsins í hinu svokallaða byrlunarmáli.
Ummæli hennar, sem finna má í fyrirsögn þessarar fréttar, verða að skoðast í ljósi þess að á síma Páls skipstjóra var að finna viðkvæmt myndefni og afar persónulegt. Ljóst er að það efni fór á flakk um leið og síminn var afritaður og þeir sem höfðu aðgang að afritinu höfðu sömuleiðis aðgang að viðkomandi gögnum.
Viðtalið við Evu má sjá og heyra í heild sinni hér: