Útlit er fyrir sólskin um nær allt land síðdegis á morgun, þriðjudag. Búast má við hlýnandi veðri víðsvegar um landið á næstu dögum, allt að tíu gráðum á Akureyri, en veðurfræðingur segir þó að enn sé nóg eftir af vetrinum.
„Það á að vera mjög sólríkt víðast hvar,“ segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands. „Síðan er bara spurning um hvernig það gengur upp.“
Meðalhitastig á Akureyri það sem af er mars er 0,4, samkvæmt veðurvefnum Bliku, en á morgun má búast við allt að tíu gráðum um kl. 17.
Björn Sævar segir að hæð sunnan landsins geri þetta að verkum en tekur fram að skýjahuluspáin geri einnig ráð fyrir að léttskýjað verði víðast hvar á landinu.
Hæðin sunnan landsins muni svo þokast austur yfir Bretlandseyja, og hlýrra loft muni svo streyma að landinu úr vesturátt, auk meðfylgjandi rigningarveðurs.
Því má við regni og hlýju víða um landið um helgina og í Reykjavík er allt að 7 gráðum spáð. „Það er útlit fyrir að eftir helgi haldi það áfram. En það gæti kólnað, kannski á miðvikudeginum, en þó ekki.“
Er þetta til marks um að veturinn sé að fara?
„Nei, nei, nei, nei,“ svarar Björn. „Alls ekki.“
Hann nefnir að enn séu góðar líkur á að það kólni aftur. Jafndægur að vori séu ekki fyrr en eftir réttrúma tíu daga. Þetta sé „óvenjuleg farsæld“ á þessum árstíma.