Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segist búast við því að verðbólgan haldi áfram að hjaðna þegar komið er inn á vorið, en hún mælist nú 4,2% og 2,7% án húsnæðis. Hann segist hins vegar óttast að síðustu metrarnir verði erfiðir, þ.e. að verðbólgan verði þrálát og að erfitt verði að koma henni niður fyrir 3%. Það sé vandamál sem bankar víða um heim horfi nú fram á.
Sögðu bæði Ásgeir og Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, að ef þeir hefðu árið 2022 vitað það sem þeir vissu um hagvöxt að þá hefði verið hægt að hækka vexti hraðar til að bregðast við verðbólgunni og þannig einnig ná verðbólgunni fyrr niður.
Þetta var meðal þess sem kom fram á opnum fundi efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis í dag.
Vísaði Ásgeir til þess að í Evrópu væri nú að mælast um 4% þjónustuverðbólga og að allir helstu seðlabankar heimsins hefðu áhyggjur af því að þó að verðbólga hafi lækkað á undanförnum misserum muni hún ekki ná markmiði og verða þrálát. Væri frekar horft til þess að komið gæti til vaxtahækkana víða erlendis en frekari lækkana.
Ásgeir benti á vaxtamun skuldabréfa til 10 og 5 ára og sagði að þótt stýrivextir víða hefðu lækkað hefði vaxtamunurinn staðið í stað. „Það endurspeglar að einhverju leyti breytt landslag í fjármálum heimsins,“ sagði hann áður en hann varaði við því að fólk hefði væntingar um mjög lága vexti. „Við erum ekki aftur að fara í núll eða neikvæða vexti eins og voru áður.“
Sagði Ásgeir að hér á landi hefði frá hruni verið ráðist í ýmsar aðgerðir til að gæta varúðar, meðal annars hefði fjármálastöðugleikanefnd komið á takmörkunum á útlánum á fasteignamarkaði og haldið aftur af skuldsetningu og takmarkað spákaupmennsku erlendra fjárfesta.
Þetta hefur að sögn Ásgeirs skilað því að útlán heimilanna hafa ekki verið lægri í 30 ár, bæði miðað við landsframleiðslu og ráðstöfunartekjur heimilanna. Þá séu lítil merki um greiðsluvandræði og viðskiptajöfnuður sé í tiltölulegu jafnvægi og þar með sé krónan nokkuð stöðug.
Sagði Ásgeir að þessi staða yki líkur á því að landsmenn gætu fengið mjúka lendingu við að ná niður vöxtum og verðbólgu.
Skagfirsk spakmæli virðast ofarlega í huga Ásgeirs, því hann endurtók á í kjölfarið ummæli sem hann lét falla fyrir rétt tæplega ári síðan á fundi fjármálastöðugleikanefndar. „Eins og þeir segja í Skagafirði: „Það er aldrei hægt að hrósa hálfjárnuðum hesti“,“ sagði Ásgeir á fundinum í morgun og átti þar við að ekki sé rétt að fara að hrósa árangri í baráttunni við verðbólguna fyrr en það takist að ná henni niður í markmið Seðlabankans.
Fór hann næst yfir stöðuna erlendis og breyttar áherslur í Bandaríkjunum. Sagði hann opin hagkerfi eins og Ísland háð utanríkisviðskiptum og því væru þessar breyttu áherslur miklar áhyggjur fyrir Ísland.
„Við teljum okkur hafa legið yfir öllum þeim áhættuþáttum sem eru innandyra hjá okkur, en erum lítið land háð því sem stærri löndin gera,“ sagði Ásgeir um undirbúning í Seðlabankanum.
Sagðist hann álykta það svo að peningastefnan hefði skilað góðum árangri og að Ísland væri á nokkuð góðum stað og engin merki um vandamál í fjármálageiranum eða hjá heimilum.
Hins vegar væru helstu áhyggjurnar að komast síðustu metrana niður í 2,5% verðbólgumarkmið og svo af stöðunni erlendis sem gæti haft áhrif hér á landi.
Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, spurði Ásgeir á fundinum hvort Seðlabankinn hefði getað náð verðbólgu hraðar niður og vísaði í reglur um peningastefnu og að ná ætti verðbólgu niður eins fljótt og auðið er. Jafnframt hvort bankinn hefði horft til annarra hluta en bara að ná verðbólgu niður, líkt og hagvaxtar, skulda heimila o.fl.
Ásgeir sagði þetta góða spurningu og hægt hefði verið að bregðast harðar við. „Alveg klárt að við hefðum getað náð verðbólgu hraðar niður með því að beita harðari aðgerðum. Hækka vexti meira og ég nefni að ef við hefðum afnumið varúðarreglur á gjaldeyrismarkaði, ef við hefðum opnað landið og sagt: „Kæru spákaupmenn ykkur er velkomið að koma“ og gengið hefði hækkað. Þá hefðum við náð verðbólgu fyrr niður,“ sagði hann.
Hins vegar hefði peningastefnunefnd haft önnur atriði til hliðsjónar. „Þetta hefur tekið of langan tíma, en það eru önnur sjónarmið sem við höfum haft í huga varðandi þjóðhagsvarúð, varðandi hagvöxt, varðandi verðmætasköpun í kerfinu.“
Árið 2022 var hagvöxtur á Íslandi 9% og 20% yfir árin 2021 til 2023. Ásgeir sagði þetta vera tölur sem að bankinn hafi ekki vitað fyrr en eftir á og ef þeir hefðu gert sér grein fyrir að svona mikill hagvöxtur væri í gangi hefði verið brugðist öðruvísi við. „Klárt mál að við hefðum hækkað vexti hraðar ef við hefðum vitað af því sem var farið að gerast.“
Þórarinn tók undir með Ásgeiri. „Hefðum við vitað það sem við vitum í dag hefðum við hækkað vexti hraðar,“ sagði hann.
Hafði Þórarinn nokkrar áhyggjur því að verðbólguvæntingar hefðu farið af stað og sagði að afleiðingar af kostnaðarhækkunum væru núna að aukast eftir að verðbólguvæntingar hefðu misst kjölfestu sína.