Konan sem komst undan lögreglu fyrr í dag hefur verið tekin höndum. Hún fannst í austurbæ Reykjavíkur um klukkan 21 í kvöld.
Þetta staðfestir Heimir Ríkarðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.
Hann kveðst ekki geta veitt frekari upplýsingar um málið að svo stöddu.
Greint var frá því fyrr í dag að lögreglan hefði í dag haft afskipti af bíl við umferðareftirlit í Lindahverfi í Kópavogi. Stöðvunarmerkjum lögreglu var ekki sinnt svo hún hóf eftirför.
Eftirförinni lauk við gatnamót í Kópavogi þegar tvennt hljóp út úr bílnum og reyndi að komast undan á hlaupum. Einstaklingarnir eru taldir tengjast rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á manndrápsmáli.
Karlmaðurinn náðist en konan komst undan eins og áður sagði.
Hún er nú fundin og hafa þar með samtals sjö verið teknir höndum vegna málsins.