Leitarbeiðnum vegna týndra barna fjölgaði töluvert eftir að meðferðarheimilinu Lækjarbakka var lokað vegna myglu í október í fyrra. Ástandið versnaði enn frekar eftir brunann á Stuðlum í október. Vegna úrræðaleysis er nú ítrekað verið að leita að sömu börnunum aftur og aftur sem glíma við sama vandann. Þá eru strok af meðferðarheimilum verkefni sem þarf ítrekað að sinna.
Þetta segir lögreglumaðurinn Guðmundur Fylkisson, sem í áratug hefur leitað að týndum börnum og ungmennum. Í hugum margra foreldra er hann algjör bjargvættur og börnin upplifa að þau geti treyst honum.
„Síðan að Lækjarbakki lokaði í fyrra, sem var langtímameðferðarúrræði fyrir stráka, þá þýddi það að drengirnir sem hefðu átt að vera þar, og kannski hefði verið hægt að vinna með, þeir tóku neyðarvistunina yfir. Gerðu hana upptekna,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is og vísar þar til neyðarvistun Stuðla.
„Þeir komu í bæinn og héldu bara áfram í sinni neyslu. Ég var farinn að lenda í því í haust, áður en bruninn varð, eitthvað sem ég hafði ekki lent í í mörg ár, að það var fullt.“
Guðmundur segir Ásmund Einar Daðason, fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, hafa gefið þau fyrirmæli á sínum tíma að neyðarvistun væri aldrei full og ætti alltaf að geta tekið við.
„Það gert eftir að ég hafði gagnrýnt að ég var með krakka sem var ekkert hægt að gera við, af því neyðarvistun var full. Það voru gerðar ákveðnar breytingar uppi á Stuðlum þannig það var aldrei fullt, en það fór að bera á því aftur á móti í haust, á þann veg að það þurfti að forgangsraða. Það var aldrei sagt beinum orðum að það væri ekki pláss, en samt lá það fyrir að það væri ekki pláss,“ útskýrir Guðmundur.
„Þá erum við að tala um að krakkar sem voru í minni vanda, en hefðu þurft þetta stopp, fengu ekki þetta stopp, því þau sem voru inni voru í meiri vanda og ekki var vilji til að blanda þeim saman.“
Þetta leiddi af sér algjört úrræðaleysi fyrir þessi börn.
„Svo varð bruninn og þá fór allt til helvítis, ef við getum orðað það þannig. Það mun örugglega taka svolítinn tíma að vinda ofan af því,“ segir Guðmundur.
Þá hafi í ofanálag fjölgað þeim börnum sem vista þurfti fyrir réttarvörslukerfið, bæði í gæsluvarðhaldi og afplánun.
„Það er bara ákveðinn fjöldi plássa á Stuðlum og þau voru orðin upptekin af aðilum sem voru í gæslu eða afplánun. Þannig þetta varð tvöfaldur vandræðagangur og tregða sem myndaðist.“
Ekki hefur verið hægt að bjóða upp á hefðbundna meðferð á Stuðlum eftir brunann í október. Stúka þurfti af hluta af meðferðardeildinni til að nýta undir neyðarvistun og þau fjögur pláss sem voru eftir hafa verið nýtt fyrir drengi í gæsluvarðhaldi og erfiðustu skjólstæðingana í sem einhvers konar langtímaúrræði.
Bæði innanbúðafólk á Stuðlum og foreldrar barna hafa hins vegar sagt í samtölum við mbl.is að engin meðferð fari þar fram. Vegna erfiðra aðstæðna sé úrræðið sé í raun bara geymsla.
Ekkert hefðbundið meðferðarúrræði var því til staðar í þrjá mánuði, eða frá því bruninn átti sér stað í lok október og þangað til farið var að taka á móti skjólstæðingum á meðferðarheimilinu Blönduhlíð sem tímabundið er staðsett á Vogi.
Hafði þetta þau áhrif að börn sem hefðu átt að vera í hefðbundinni meðferð voru í staðinn ítrekað færð í neyðarvistun, þar sem ekkert annað úrræði var í boði. Það vandamál verður í raun viðvarandi áfram þar sem ekkert langtímaúrræði hefur verið í boði fyrir drengi frá því Lækjarbakka var lokað. Að minnsta kosti sex mánuðir eru þangað til hægt verður að opna langtímaúrræði á nýjan leik.
Þangað til má gera ráð fyrir að ítrekað verði leitað að þeim drengjum sem ættu að vera þar og þeir færðir í neyðarvistun til að koma þeim í eitthvað skjól.
Eitt af því sem gert var, að sögn Guðmundar, til að losa um pláss í neyðarvistun, var að stytta hámarksvistunartíma úr tveimur vikum niður í eina.
„Það gerðist mjög sjaldan að krakki væri þar í hálfan mánuð, þetta var yfirleitt styttri tími, en þeir taka ákvörðun um það sjálfir að þetta yrði ekki meira en vika. Það hafði bara þau áhrif að ég var aftur og aftur að leita að sama einstaklingum í sama vandanum. Af því það náðist ekki að stoppa hann,“ segir Guðmundur og bætir við:
„Hann var kannski þessa sjö daga, en hefði þurft lengri tíma. Hann fer út og tveimur dögum seinna er ég aftur á eftir honum og hann þarf að fara aftur inn. Þetta eru snjóboltaáhrif sem verða.“
Þangað til í mars árið 2018 hafði Guðmundur mest fengið 37 leitarbeiðnir á einum mánuði, en í ágúst í fyrra voru þær 40. Þar af 21 vegna stroks frá Stuðlum.
„Helmingurinn af áreitinu var strok frá Stuðlum. Þó að krakkar væru komnir þar í ákveðið öryggi þá tókst ekki að halda þeim þar. Þau bara stungu af.“
Í september á síðasta ári fékk hann 30 leitarbeiðnir en í október voru þær 41. „Þannig á þremur mánuðum var ég með 111 beiðnir, sem er helvíti mikið.“
Strok hefur einnig verið vandamál í Blönduhlíð, en aðeins eru nokkrar vikur síðan starfsemin hófst á Vogi.
„Það byrjaði bara strax. Þau eru orðin sex eða sjö strokin frá Blönduhlíð.“
Þannig strok er svipað vandamál í Blönduhlíð og á Stuðlum?
„Já þau virðast eiga auðveldara með það frá Blönduhlíð heldur en Stuðlum. Svo getur vel verið að búið sé að bæta úr því sem var. Á Stuðlum eru til að mynda allir gluggar þannig að það er ekki hægt að opna þá alveg, en þau virðast bara hafa getað farið út um gluggana.“
Á þessu ári eru leitarbeiðnir sem komið hafa inn á borð Guðmundar orðnar á milli 50 og 60 talsins.
Eftir brunann hefur ástandið bara stöðugt farið versnandi að sögn Guðmundar.
„Það sem bætist ofan á er annað úrræðaleysi. Einkaúrræðin voru hætt að geta tekið við krökkum sem þurftu sértæk úrræði, ekki endilega vistun á Stuðlum, heldur fósturúrræði,“ útskýrir hann.
„Við vorum með krakka á grunnskólaaldri, skólaskyldualdri, sem voru nánast komin á götuna af því það var búið að henda þeim út heima og barnaverndarkerfið hafði ekki og gekk illa að finna úrræði fyrir þau. Stuðlar voru heldur ekki lausnin. Þetta voru 14 ára krakkar sem við vorum nánast með á götunni.“
Hann segir að í þeim tilfellum hafi verið um börn af erlendu bergi brotnu að ræða
„Þetta er annar menningarheimur þar sem þykir eðlilegt að henda barninu út ef það er óþekkt. Það tók tíma, en kerfið virðist vera að ná tökum á þessu núna. Þetta hafði smitáhrif yfir í aðra krakka þegar þessir krakkar gengu úti.“
Síðustu mánuðir hafa því verið erfiðir fyrir börn sem glíma við fjölþættan vanda og þurfa á úrræðum að halda. Að sama skapi hefur þessi tími verið krefjandi fyrir Guðmund, sem hefur verið vakinn og sofinn yfir því að koma börnunum í skjól.
„Veturinn hefur verið frekar þungur og þegar maður les núna að næsta skref verið ekki fyrr en í haust, þá hugsar maður með sér hvort maður sé að fara að byrja aftur á núllpunkti eftir páska, þegar krakkarnir sem hafa verið uppi á Blönduhlíð labba þaðan út. Því sum þeirra þurfa meira heldur en það. En það er ekkert meira í boði,“ segir Guðmundur og vísar til þess að það úrræði sem taki við sem langtímaúrræði af Lækjarbakka, verði ekki ekki opnað fyrr en í haust, í fyrsta lagi.
Móðir drengs með alvarlegan fíknivanda, sem nú er í meðferð í Blönduhlíð, lýsti því einmitt í samtali við mbl.is á sunnudag að hún væri strax farin að kvíða fyrir framhaldinu. Hún sagði viðbúið að drengurinn myndi leita aftur í sama félagsskap eftir að meðferð lyki, ef hann kæmist ekki í framhaldsúrræði.
Er það mat Guðmundar að margt gott hafi gerst síðustu ár í málefnum barna með fjölþættan vanda. Þá aðallega í því sem snýr að því að grípa börn fyrr, en hins vegar hafi þau börn sem komin voru í vanda dálítið gleymst.
„Í öllum þessum breytingum þá er verið að skrúfa fyrir lekann, en það er ekki verið að vinna í skemmdunum sem voru komnar. Ég upplifi það pínulítið þannig.“