Bræðurnir hagnýttu sér óvissuna: Fengu tugmilljónir

Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson voru sakfelldir í …
Bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson voru sakfelldir í Hæstarétti. Hér má sjá þá grímuklædda á tímum kórónuveirufaraldursins á meðan málið var til meðferðar í héraði. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn/Eggert

Hæstiréttur segir að bræðurnir Ágúst Arnar Ágústsson og Einar Ágústsson hafi sameiginlega markvisst hagnýtt sér þá óvissu sem hafði skapast um starfsemi Zuism-trúfélags og aflað félaginu framlaga úr ríkissjóði sem það átti í reynd engan rétt á.

Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar sem hefur verið birtur. Þar er dómur Landsréttar í máli bræðranna frá því í fyrra staðfestur.

Í málinu var þeim bræðrum gefið að sök fjársvik og peningaþvætti með því að hafa hagnýtt sér þá röngu hugmynd stjórnvalda að Zuism-trúfélag uppfyllti skilyrði skráningar trúfélaga samkvæmt lögum um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög og þannig aflað trúfélaginu 84.727.320 króna sóknargjalda úr ríkissjóði sem það átti ekki rétt á.

Málið var upphaflega höfðað með ákæru héraðssaksóknara 4. nóvember 2020.

Bræðurnir kröfðust frávísunar, heimvísunar eða ómerkingar málsins vegna ágalla á ákæru og dómi Landsréttar.

Dómur Landsréttar staðfestur

Hæstiréttur taldi enga þá formannmarka á málinu sem stæðu því í vegi að það yrði lagður efnisdómur á það og staðfesti niðurstöðu Landsréttar um sakfellingu bræðrannar en þó þannig að leggja yrði til grundvallar að þeir hefðu styrkt og hagnýtt sér óljósa hugmynd viðkomandi starfsmanna ríkisins fremur en beinlínis ranga hugmynd þeirra.

Bræðurnir hafi þannig sameiginlega markvisst hagnýtt sér þá óvissu sem hafði skapast um starfsemi Zuism-trúfélags og aflað félaginu framlaga úr ríkissjóði sem það átti í reynd engan rétt á.

Var staðfest niðurstaða Landsréttar um refsingu ákærðu og upptöku eigna hinna ákærðu félaga að sögn Hæstaréttar.

Orðrétt segir í dómi Hæstaréttar:

„Með framangreindum hætti hagnýttu ákærðu Ágúst Arnar og Einar sér markvisst og sameiginlega þá óvissu sem skapast hafði um raunverulega starfsemi hins ákærða trúfélags og öfluðu því framlaga úr ríkissjóði sem það átti í reynd engan rétt á. Í þessu ljósi getur ekki skipt máli þótt af hálfu stjórnvalda hafi á ákærutímanum verið uppi efasemdir um hvort og þá að hvaða marki raunveruleg starfsemi færi fram á vettvangi hins ákærða trúfélags svo og hvort fullnægt væri grunnskilyrðum II. kafla laga nr. 108/1999 fyrir skráningu þess. Með sama hætti getur ekki haft þýðingu þótt viðbrögð stjórnvalda við þeim aðstæðum sem uppi voru á ákærutímabilinu kunni að einhverju leyti að hafa verið of varfærin eða ómarkviss.“

Gert að greiða rúmar fimm milljónir

Þá er Ágústi Arnari og Zuism-trúfélagi gert að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, 2.511.000 krónur.

Einar, EAF ehf. og Threescore LLC er gert að greiða óskipt málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, 2.511.000 krónur.

Þá er þeim gert að greiða óskipt annan áfrýjunarkostnað, 782.512 krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert