Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins, hefur ákveðið að boða til skyndifundar í kvöld í tilefni af ásökunum sem Karl Héðinn Kristjánsson, fyrrverandi stjórnarmaður í kosningastjórn flokksins, hefur komið fram með á hendur Gunnari Smára.
Þetta kemur fram í færslu sem Gunnar Smári birtir á Facebook. Þá segir hann að fundurinn muni fara fram í félagsheimili Vorstjörnunnar í Bolholti 6 klukkan 18.
Karl Héðinn segist segja af sér í mótmælaskyni eftir sameiginlegan fund stjórna sem fór fram á laugardag.
„Ástæðan er einföld: Ég get ekki lengur starfað innan forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðheldur óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin,“ skrifaði Karl í bréfi sem hann hefur sent flokksmönnum.
Karl sakar Gunnar Smára m.a. um trúnaðarbrot, ofríki og andlegt ofbeldi.
„Þar mun ég fara yfir opið bréf Karls og ræða þau atriði þess sem snúa að mér og greina frá starfi flokksins á undanförnum misserum. Þau sem vilja kynna sér málin í kjölfar lestrar bréfs Karls eru hvött til að mæta. Fundurinn er öllum opinn,“ skrifar Gunnar Smári.