Hæstiréttur hefur sakfellt bræðurna Ágúst Örn Ágústsson og Einar Ágústsson í máli sem tengist rekstri trúfélagsins Zuism.
Dómur í málinu féll í Hæstarétti kl. 14 og þar var niðurstaðan sú að dómur Landsréttar frá því í mars í fyrra yrði óraskaður. Ekki er búið að birta sjálfan dóminn.
Landsréttur sneri í fyrra við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í máli bræðranna og fann þá seka um fjársvik og peningaþvætti. Hlaut Einar 18 mánaða dóm og Ágúst tveggja ára dóm.
Auk þess voru tugmilljóna eignir félaga sem þeir tengjast gerðar upptækar og samtals þurfa þeir að greiða um 30 milljónir í sakarkostnað.
Bræðurnir tveir voru ákærðir fyrir að látast reka trúfélag sem uppfyllti skilyrði laga um slík félög og svíkja þannig ríflega 85 milljónir króna út úr ríkinu í formi sóknargjalda. Sömuleiðis voru þeir ákærðir fyrir peningaþvætti á fjármununum.
Í málinu var sjálft trúfélagið Zuism, einkahlutafélagið EAF sem Einar er í forsvari fyrir og bandaríska skúffufélagið Threescore LLC í Delaware einnig ákært. Millifærðu bræðurnir m.a. stóran hluta fjármuna Zuism á félagið EAF sem þeir létu Zuism síðar kaupa af öðru félagi Einars.
Í júní í fyrra sóttu bræðurnir um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar, og sem fyrr segir þá féll þar dómur í dag.