Óvíst hvort maðurinn hafi verið þvingaður í bílinn

Viðbragðaðilar fundu manninn nærri leiksvæði í Gufunesi.
Viðbragðaðilar fundu manninn nærri leiksvæði í Gufunesi. mbl.is/Karítas

Sumir þeirra sem voru handteknir í gær í tengslum við rannsókn lögreglu á andláti manns á sjötugsaldri frá Þorlákshöfn eru í svokölluðum tálbeituhópi ungmenna á Vesturlandi, samkvæmt heimildum mbl.is.

Að minnsta kosti þrír hóp­ar ung­menna, á mismunandi svæðum á landinu, hafa stundað það að leiða meinta barn­aníðinga í gildru með tál­beituaðgerð og í kjöl­farið ganga í skrokk á viðkom­andi.

Í þessu tilviki er talið að hópurinn hafi viljað kúga fé út úr manninum, en ekki hefur fengist staðfest hvort þetta mál tengist slíkum tálbeituaðgerðum.

Lögreglan hefur ekki viljað staðfesta hvort þeir handteknu tengist þessum hópum.

Fór upp í bíl nærri heimili sínu 

Maðurinn fannst nærri leiksvæði í Gufunesi í gærmorgun og var þá með lífsmarki. Hann lést skömmu eftir komu á slysadeild.

Í tilkynningu lögreglunnar á Suðurlandi í morgun sagði að tilkynning um hvarf mannsins hefði borist skömmu fyrir miðnætti á mánudagskvöld.

Maðurinn hafði yfirgefið heimili sitt í Þorlákshöfn fyrr um kvöldið og var óttast um hann.

Þekktur ofbeldismaður 

Samkvæmt heimildum mbl.is fór maðurinn upp í bíl nærri heimili sínu. Óljóst er hvort hann hafi gert það sjálfviljugur eða verið þvingaður til þess með einum eða öðrum hætti. Eftir að maðurinn fór í bílinn barst tilkynning um það frá sjónarvotti. Stöðvaði lögregla í kjölfarið fjölda bifreiða í Þrengslunum í viðleitni sinni til að hafa uppi á manninum. Auk þess var mikill viðbúnaður í Þorlákshöfn.

Fimm eru í varðhaldi vegna málsins. Einn hinna handteknu er þekktur ofbeldismaður á fertugsaldri sem margsinnis hefur komist í kast við lögin. Þá er hluti þeirra sem eru í varðhaldi einstaklingar upp úr tvítugu.

Lögregla bað um myndefni 

Ekki hefur fengist staðfest hvort að maðurinn hafi látist í svokallaðri tálbeituaðgerð hópsins og engar heimildir liggja fyrir um það hvort maðurinn hafi reynt að setja sig í samband við börn á samfélagsmiðlum. 

Lögreglustjórinn á Suðurlandi fer með rannsókn málsins en auk þess hafa lögregluembættin á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vesturlandi, auk sérsveitar ríkislögreglustjóra, einnig komið að henni.

Íbúi í Þorlákshöfn segir lögreglu hafa sett sig í samband við íbúa sem búa nærri heimili mannsins í Þorlákshöfn til þess að athuga hvort myndavélar hafi beinst að heimili mannsins eða á vegi sem bíllinn er talinn hafa átt leið um eftir að hinn látni fór inn í bílinn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert