Pipar\TBWA hefur verið valin auglýsingastofa ársins annað árið í röð.
ÍMARK, samtök íslensks markaðsfólks, veita verðlaunin árlega en þau eru eftirsóttustu verðlaun auglýsingageirans. Markaðsstjórar íslenskra fyrirækja kjósa.
Verðlaunin eru meðal annars veitt fyrir framúrskarandi þjónustu, hugmyndaauðgi fagleg vinnubrögð og áherslu á árangur viðskiptavina á nýliðnu ári.
Guðmundur Pálsson, framkvæmdastjóri Pipar/TBWA segist í tilkynningu bæði afar stoltur og ánægður að hjóta þessi stóru verðlaun annað árið í röð.
„Pipar\TBWA hefur verið í fremstu röð á Íslandi og nýtur þess að vera í samstarfi við eina stærstu keðju auglýsingastofa í heiminum, TBWA.
Hugmyndaauðgi hefur verið helsta söluvara okkar síðustu ár en við erum það lánsöm að vera með góðan hóp fólks hér á stofunni með mikla og góða reynslu.
Í þessum bransa er fólkið einmitt aðalatriðið, því hugmyndir og ráðgjöf eru það sem þetta gengur aðallega út á,“ er haft eftir Guðmundi.
Pipar\TBWA vann einnig tvo lúðra í flokkunum PR annars vegar og veggspjöld og skilti hins vegar fyrir herferðina „Ekki taka skjáhættuna“ sem stofan vann í samstarfi við Sjóvá.
Icelandair hlaut þá titilinn Vörumerki ársins 2024.