Taílandsþríleikur Megasar sem ögrandi list

Í Fléttum VII fjallar Þorsteinn Vilhjálmsson um hinseginleika og óríentalisma í Taílandsþríleik Megasar frá níunda áratug síðustu aldar.

Þorsteinn byrjar greinina á því að rifja upp viðtal í Stundinni í nóvember 2021 þar sem nafngreind kona sakar Megas og annan tónlistarmann um kynferðislegt ofbeldi. Eins og Þorsteinn rekur söguna fór af stað á samfélagsmiðlum mikil umræða um Megas og það hvað hann hefði nú alltaf verið ókræsilegur karakter.

Í viðtali í Dagmálum segir Þorsteinn að sér hafi þótt þetta forvitnilegt í umræðunni að „allir vissu að Megas var þetta og hitt og það sem síðan fylgir er oft alveg villt og galið. En þetta er svo áhugaverð staða. Þetta er eitthvað sem allir vissu en ef maður flettir í blöðunum frá þessum tíma – enginn er að tala um þetta – var þetta svona neðanjarðar vitneskja sem er á stigi orðrómanna sem breiðast nú út frá manni til manns og tekur á sig ýmsar mjög svona gróteskar myndir.“

Þorsteinn segir að sér hafði þótt áhugavert viðfangsefni hvað lægi að baki þessara viðbragða sem eiga sér að miklu leyti rætur í svonefndum Taílandsþríleik Megasar, en þar er átt við plöturnar Loftmynd og Höfuðlausnir og hlut Megasar í plötunni Bláir draumar, en allar komu þær út á árunum 1987 og 1988.

„Mér finnst miklu áhugaverðara að skoða þá hvata heldur en manninn sjálfan, þessa löngun til að fordæma hann leynilega á stigi orðróma og líka að afsaka hann. Það eru búnar til afskaplega kjánalegar afsakanir eða afskrifanir á ögrunum hans meðal svona listaspekúlanta og menningarfrömuða þar sem gert er lítið úr þeim tíma sem hann syngur um í þríleiknum: Þetta var ómerkilegt, stutt hommatímabil, ekkert nema tilgerð. Það var aldrei neitt í þessu.

Maður er hvattur til að líta fram hjá þessu, láta eins og það hafi ekkert gerst eða gera lítið úr því eins og þetta hafi verið grín eða bara ómerkilegheit. Að það sé í raun og veru eingöngu til marks um einhvers konar þröngsýni, fordóma og bara afturhaldssemi að yfirleitt ræða efni þessarar þriggja hljómplatna. Þetta þykir mér líka vera afskaplega áhugavert, áhugaverð strategía og ég er alls ekki sammála henni því sem mér finnst hún draga svo gríðarlega mikið úr Megasi sem listamanni og Taílandsþríleiknum sem ögrandi list.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert