„Eftir því sem lengra líður eru meiri líkur á stóru gosi“

Rúmir þrír mánuðir eru liðnir frá því að síðasta eldgosi …
Rúmir þrír mánuðir eru liðnir frá því að síðasta eldgosi lauk á Sundhnúkagígaröðinni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Jarðskjálftavirknin við Sundhnúkagígaröðina er að vaxa hratt og ég myndi segja að það líti allt út fyrir að það styttist í eldgos.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, við mbl.is spurður út í stöðu mála á Reykjanesinu.

Síðasta eldgosi, sem var það sjöunda á Sundhnúkagígaröðinni frá því í desember 2023, lauk 9. desember og því eru liðnir rúmlega þrír mánuðir frá því að gosi lauk. Þetta er lengsta kvikusöfnunartímabil í þessari eldgosahrinu á gígaröðinni en í dag eru 113 dagar frá því síðasta eldgos hófst þann 20. nóvember í fyrra.

Benedikt segir að líða muni að mesta lagi nokkrar vikur áður en það byrji að gjósa á nýjan leik og mögulegt er að gosið verði stærra en fyrri gos.

„Eftir því sem lengra líður á milli gosa eru meiri líkur á stóru gosi en það er ekkert sjálfgefið að það verði stærra,“ segir Benedikt. Hann segir að hægt hafi á innflæði kviku sem valdi aukinni skjálftavirkni.

Öflug jarðskjálftahrina hefur verið við Reykjanestá sem hófst á þriðja tímanum í gær og spurður hvort atburðarásin þar tengist Sundhnúkagígaröðinni segir hann:

„Það koma reglulega hrinur á Reykjanestánni og það getur vel verið samspil þarna á milli. Við höfum séð það áður að þegar þenslan í Svartsengi er komin yfir fyrri mörk þá eykst skjálftavirknin á Reykjanesinu í heild.“

Benedikt segir að á hinn bóginn séu hrinur á Reykjanestánni mjög algengar en frá árinu 2023 hafa fimm jarðskjálftahrinur orðið á sama svæði og virknin er núna.

Ekki útilokað að þetta verði síðasta gosið

Gæti væntanlegt eldgos á Sundhnúkagígaröðinni orðið það síðasta í þessari goshrinu?

„Það er ekkert útilokað að það verði það síðasta. Það er að hægja það mikið á rennslinu og það er ekki víst að það nái aftur fyrri mörkum en við vitum það ekki fyrr en löngu seinna hvenær síðasta gosið er búið. Við verðum örugglega að bíða og bíða eftir næsta gosi en svo kemur það aldrei,“ segir hann.

Benedikt segir erfitt að spá fyrir um framhaldið. Hann segir að innrennslið gæti aukist aftur og alls konar atburðir geti átt sér stað sem geti breytt myndinni gjörsamlega. Það sé hins vegar ljóst að dregið hafi úr innflæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert