Ekkert hafði spurst til mannsins í nokkra daga

Ferðamaðurinn fannst í Loðmundarfirði.
Ferðamaðurinn fannst í Loðmundarfirði. Kort/Map.is

Björgunarsveitin Ísólfur á Seyðisfirði var kölluð út kl. 10.50 í morgun vegna ferðamanns sem ekkert hafði spurst til síðan á laugardagskvöld. Fljótlega voru fleiri sveitir boðaðar út, björgunarsveitin Sveinungi á Borgarfirði Eystra og Gerpir á Norðfirði ásamt áhöfn björgunarskipsins Hafbjargar á Norðfirði.

Síðast hafði spurst til mannsins á laugardag, þegar hann fékk far út með Seyðisfirði að bóndabæ sem hann sagðist vera með gistingu á. Spor sáust á þeim slóðum sem virtust nýleg og lágu út með norðanverðum Seyðisfirði, að því er segir í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Erfitt um fjarskipti

Leitinni var því beint að strandlengjunni þar og yfir í Loðmundarfjörð. Þar er erfitt um fjarskipti og var Hafbjörg meðal annars notuð til að spegla fjarskipti í land til aðgerðastjórnar.

Fljótlega eftir að björgunarbátur frá Ísólfi og Hafbjörgin komu inn í Loðmundarfjörð sást bakpoki eða einhvers konar skjóða í fjörunni sem ákveðið var að skoða betur. Hafbjörg var þá komin innar í fjörðinn en björgunarbáturinn frá Ísólfi. Hafbjörginni var snúið við og báturinn frá Ísólfi fór að landi. Áhöfn Hafbjargar setti dróna á loft og hann var varla kominn á loft þegar björgunarmenn komu auga á manninn þar sem hann stóð á kletti í fjörunni og veifaði til björgunarmanna, segir enn fremur.

Björgunarfólkið fegið

„Það er óhætt að segja að það hafi glatt björgunarfólk óumræðanlega að sjá manninn heilan á húfi.

Hann var sóttur í fjöruna af björgunarbát Ísólfs og fluttur um borð í Hafbjörgina sem lónaði þar rétt fyrir utan. Vel gekk að komast að honum og var björgunarbáturinn keyrður að lítilli skoru í klettinum þar sem hægt var að skorða stefni bátsins svo maðurinn kæmist að mestu auðveldlega um borð.

Það var afar ánægður ferðalangur sem settist niður í Hafbjörginni og fékk heita súpu og orkudrykk til að næra sig á, en hann hafði þá verið á ferðinni síðan á sunnudag, sofið undir berum himni þar sem frost fór niður í að minnsta kosti 2 gráður, án svefnpoka eða tjalds,“ segir í tilkynningunni.

Reyndi að ná athygli báta með því að blikka vasaljósi

Þá segir að hann hafi ekki haft neitt nesti að ráði meðferðis og hafði nært sig á jurtum sem hann taldi ætar og næringarríkar sem hann fann ásamt því að drekka vatn.

„Hann sagði við björgunarmenn að hann hefði reynt að ná athygli fiskibáta með því að blikka vasaljósi sem hann hafði meðferðis, án árangurs, en þegar hann sá björgunarskipið og bátinn sigla inn Loðmundarfjörð, var hann þess fullviss að nú yrði honum bjargað.

Hann var svo fluttur til Neskaupstaðar og á fjórðungssjúkrahúsið til aðhlynningar,“ segir Landsbjörg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert