Fara fram á gæsluvarðhald yfir fjórða: Voru saman í bíl með þeim látna

Frá Gufunes þar sem maðurinn fannst.
Frá Gufunes þar sem maðurinn fannst. mbl.is/Karítas

Lögregla hefur óskað eftir gæsluvarðhaldi yfir fjórðu manneskjunni sem grunuð er um að hafa átt aðild að frelsissviptingu, fjárkúgun og drápi á manni á sjötugsaldri frá Þorlákshöfn. 

Þremenningarnir sem þegar voru í varðhaldi eru samkvæmt heimildum mbl.is öll sögð hafa verið saman í bíl með manninum sem lést eftir eftir hann hafði sætt barsmíðum. 

Þá herma heimildir mbl.is að maðurinn hafi verið færður á milli þeirra tveggja bíla sem tengjast rannsókninni áður en hann var skilinn eftir við leiksvæði í Gufunesi, þungt haldinn eftir barsmíðar. Hann lést skömmu síðar á sjúkrahúsi.

Senda erótískar myndir 

Samkvæmt heimildum mbl.is var um tálbeituaðgerð að ræða. Eins og fram hefur komið hefur hluti hópsins, sem tengdur er Suðurlandi, áður verið bendlaður við að hafa beitt tálbeituaðgerðum þar sem meintir barnaníðingar hafa verið skotmörk. Í þeim tilvikum hafa m.a. verið sendar erótískar myndir af líkamshlutum kvenna sem tekið hafa þátt í tálbeituaðgerðum með hópnum. Tilgangurinn til þessa hefur verið að ginna og að gefa í skyn að viðkomandi sé að fara að hitta barnungar manneskjur í kynferðislegum tilgangi. 

Upphaflega var tilgangur hópanna eingöngu að beita meinta barnaníðinga ofbeldi en upp á síðkastið hefur borið á því að tilgangurinn hafi verið sá að kúga fé út úr fórnarlömbum auk þess að beita þau ofbeldi. 

Í varðhaldi eru 18 og 34 ára karlmenn og kona á 37. aldursári. 

Hegðunin ófyrirsjáanleg

Hinn látni glímdi við veikindi og persónuleikaröskun og hafði fengið aðstoð frá sveitarfélaginu til þess að sækja þjónustu frá stofnun nær daglega. Mál manna sem mbl.is hefur rætt við í Þorlákshöfn er að maðurinn hafi verið afar breyttur frá fyrri tíð og hegðun verið ófyrirsjáanleg undanfarin misseri. Engar fregnir séu þó af því hann hafi sóst eftir kynnum við börn. 

Lögðu hald á rangan bíl 

Þeir tveir bílar sem lögregla er með til skoðunar eru svört Tesla og rauð Golf-bifreið. Eitthvað virðist hafa misfarist hjá lögreglu þegar að því kom að leggja hald á rauðu Golf-bifreiðina. Þannig dró lögregla ranga bifreið af bílastæði á höfuðborgarsvæðinu á þriðjudagsmorgun.  Mætti grunlaus eigandi bílsins út á bílastæði en bíllinn var á brott. Eigandinn leitaði til lögreglu í Kópavogi sem lýsti eftir bílnum og tilkynnti stuld. 

Í ljós kom hins vegar að lögregla hafði gert mistök og lagt hald á rangan bíl. Bíllinn var á sama tíma í geymslu hjá lögreglunni á Hverfisgötu. Fékk maðurinn bílinn í hendurnar að nýju í gær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert